Sex mörk og þrjú rauð spjöld í hasarleik í Hveró
Tindastólsmenn héldu í Hveragerði í gær og það var engin aslöppunarferð. Þeirra biðu hungraðir Hamarsmenn sem kalla ekki allt ömmu sína í boltanum. Samkvæmt upplýsingum Feykis var leikurinn kaflaskiptur. Þegar upp var staðið voru það gestirnir sem tóku stigin með sér norður og halda því enn í vonina um sæti í 3. deild. Lokatölur voru 2-4.
Addi Ólafs gerði fyrsta mark leiksins eftir stundarfjórðungsleik og á 43. mínútu vænkaðist hagur Stólanna þegar Rodrigo Depetris fékk að líta sitt annað gula spjald. Staðan 0-1 í hálfleik en síðari hálfleikur var nýhafinn þegar Jón Gísli bætti við öðru marki Stólanna. Einum færri minnkuðu heimamenn muninn á 56. mínútu með marki Mána Benedikts. Fjórum mínútum síðar fauk Domi af velli með rautt og því jafnt í liðum á ný. Máni hélt upp á það með því að jafna leikinn á 62. mínútu.
Stólarnir brugðust vel við mótlætinu og David Jimenez kom þeim yfir að nýju á 69. mínútu. Áfram hélt baráttan en Jóhann Daði gerði út um leikinn á 83. mínútu, sex mínútum eftir að hafa komið inn á. Á stuðningsmannasíðu Tindastóls segir að markið hafi hann gert með skoti frá miðju en það ku vera eitthvað orðum aukið – hann var víst staddur í vítateig Hamars þegar hann skoraði. Ekki var hasarinn þó alveg búinn því dómarinn fækkaði enn í liði heimamanna þegar hann sendi Unnar Magnússon í bað á fyrstu mínútu uppbótartíma.
Nú eru tvær umferðir eftir í 4. deildinni og lið Tindastóls enn sem fyrr í fjórða sæti en nú með 30 stig. Efstir eru Vængir Júpíters úr Grafarvogi með 36 stig, í öðru sæti er KFK með 33 stig og Árborg í þriðja sæti með 32 stig. Það er því enn möguleiki á sæti í 3. deild en þó ansi ólíklegt að það hafist – en miði er möguleiki.
Í samtali Feykis við Jónas Aron fyrirliða sagði hann að það þetta hefði verið mikill hasarleikur, „...Hamarsmenn leggja mikið upp úr því að búa til læti í leikjunum sínum (6 rauð í síðustu 4), þetta var baráttusigur sem heldur okkur enn inni í þessu þar sem næsti leikur er á móti KFK sem eru þremur stigum á undan okkur. Við ætlum að klára okkar leiki og svo sjáum við til hvernig þetta endar,“ segir Jónas Aron.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.