September kveður með hvítri jörð
Króksarar vöknuðu upp við hvíta jörð í morgun og sennilega hafa einhverjir gripið í kreditkortið til að skafa af bílrúðunum. Víða er hálka á vegum á Norðurlandi vestra og jafnvel snjór og krapi á Þverárfjallsvegi. Það eru bara blessaðir malarvegirnir sem eru greiðfærir – í það minnsta svona fram eftir morgni. Eftir dumbung og raka helgarinnar stefnir í smá birtu og pínu aukinn yl í dag og vonandi nóg til að hálkan gefi eftir.
Reikna má með frosti á heiðum en hitatölur á láglendi um 2-4 gráður. Vænta má þess að veður verði stillt og gott þennan síðasta dag september. Á morgun hefst nýr mánuður, gamli góði október, og þá ríkur hitinn upp í allt að tíu gráður, enda sunnanátt í spánni og meðfylgjandi sunnanátt. Gæti farið yfir tíu metrana á annesjum.
Hitatölur út vikuna virðast alla jafna verða réttu megin við frostmark og í rólegri kantinum. Og ef marka má veðurspá fyrir næsta laugardag verður algjör sól okkar megin á Norðurlandi – einu skýin verða á Öxnadalsheiði og Akureyri um hádegi – en sennilega ekki þörf að leita að stuttbuxunum því hitastigin verða bara rétt yfir núllinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.