Sé ekkert jákvætt við sameiningu - Feykir spyr
Helgi Fannar Gestsson er búsettur á Höskuldsstöðum í „fríríkinu Akrahreppi“ eins og hann kemst sjálfur að orði. Þar býr hann ásamt bróður sínum með 100 vetrarfóðraðar ær og nokkur hross. Þá starfar hann einnig sem alhliða landbúnaðarverktaki, við afleysingar á búum ásamt rúning og hin ýmsu sveitastörf, og í haust hóf hann búfræðinám við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.
Í tilefni sameiningarkosninga sem fram fara þann 19. febrúar nk. var nokkur kosningabragur á Feyki þessa vikuna líkt og í þeirri síðustu enda ærin ástæða til. Rétt til að heyra í hinum almenna borgara sendi Feykir, af handahófi, nokkrum einstaklingum úr sitthvoru sveitarfélaginu í Skagafirði spurningar til að kanna hug þeirra til verkefnisins.
Hvernig lýst þér á að sveitarfélögin í skagafirði verði sameinuð? -Frá minni sýn þá líst mér illa á sameiningu, en það er út af því að við þurfum að hafa öflugt dreifbýlissveitarfélag sem hugsar um hagsmuni framhéraðsins.
Hvað telur þú jákvætt? -Í stuttu máli sé ég ekkert jákvætt við sameiningu sveitarfélaganna því hlutirnir hérna í hreppnum virka vel líkt og samstarf okkar við Sveitarfélagið Skagafjörð.
Hvað telur þú neikvætt við þær? -Mér persónulega finnst að skipulagsvaldið eigi að vera hjá íbúum hreppsins því það er eðlilegast að það eigi að vera sem næst jarðar- og landeigendum.
Hvernig telur þú að sameining eigi eftir að breyta þinni afkomu ef nokkuð? -Ef að sameining sveitarfélaganna verður raunin þá breytir þetta afkomu minni ekki neitt þar sem Akrahreppur hefur keypt út alla þjónustu af Sveitarfélaginu Skagafirði hingað til og mun að öllum líkindum ganga vel áfram.
Hefur þú fylgst með umræðum og skrifum á heimasíðu sameiningarnefndar Skagfirðingar.is? -Í sannleika sagt þá hef ég ekki skoðað hana mikið en þessi síða er að mínu mati frekar einhliða með sameiningu en spurt og svarað þótti mér þó skemmtilegasti parturinn af þessari síðu þar sem margar skemmtilegar spurningar komu fram.
Er eitthvað sem þér finnst tortryggilegt sem sett er fram um hugsanlega sameiningu? -Já, fjárhagsstaða Sveitarfélagsins Skagafjarðar er ekki góð og er því ekki spennandi að sameinast inn í Sveitarfélag þar sem hver íbúi skuldar um 2.000.000 kr.
Er eitthvað þar sem þú ert virkilega sammála? -Það er ekkert sem ég er virkilega sammála.
Hvað gætir þú hugsað þér að sameinað sveitarfélag myndi heita? -Sveitarfélagið Sauðárkrókur og co.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri? -Já, ég vona bara að flestir kjósi eftir sinni sannfæringu og fólk hérna í Akrahreppi kynni sér málin betur og hugsi fleiri leiki fram í tímann því að Akrahreppur er mjög mikilvægur fyrir uppbyggingu í framhéraðinu og láta rödd þess heyrast.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.