Sannleikurinn er sagna bestur
Að gefnu tilefni ætla ég að fjalla lítillega um rekstur Iceproteins ehf. og Protis ehf. síðustu árin, þ.e. frá 2013 til 2017, en ég hef ekki niðurstöðu ársins 2018. Á árinu 2012 eignaðist FISK-Seafood ehf. allt hlutafé í rannsóknar og þróunarfyrirtækinu Iceprotein. Starfsemin það ár var mjög takmörkuð vegna sérstakra aðstæðna. Í mars 2013 er dr. Hólmfríður Sveinsdóttir ráðin framkvæmdastjóri fyrirtækisins og tók að sér það verkefni að byggja upp fyrirtækið að nýju og veita því forstöðu og hefur gegnt því starfi af miklum myndarskap allt fram að síðustu helgi.
Á árinu 2015 var fyrirtækið Protis stofnað, sprottið af sama meiði til þess að halda utan um framleiðslu og markaðssetningu þeirra afurða sem koma átti á markað. Hólmfríður var ráðin framkvæmdastjóri þess fyrirtækis, enda fyrirtækin nátengd og eigandinn sá sami þ.e. FISK-Seafood. Bæði þessi fyrirtæki eru lítil sprotafyrirtæki og hefur eigandinn staðið þétt við bakið á fyrirtækjunum m.a. með húsnæði og ýmsu öðru án endurgjalds. Samkvæmt ársreikningum Iceproteins var hagnaður á árinu 2013 kr. 4,7 milljónir, tap á árinu 2014 kr. 5,4 milljónir. Á árinu 2015 var tap kr. 3,4 milljónir, hagnaður á árinu 2016 kr. 7,2 milljónir og á árinu 2017 var hagnaður kr. 4,4 milljónir. Hagnaður þessi ár var því kr. 7,5 milljónir.
Heildartekjur þessi ár voru kr. 276,8 milljónir og samanstóðu af tekjum af seldri þjónustu, styrkjum frá opinberum aðilum og sjóðum, auk styrks úr þróunarsjóði KS til einstakra verkefna eða búnaðarkaupa. Fyrsta rekstrarár Protis var árið 2016 og var tap á rekstrinum það ár kr. 8,2 milljónir, en árið 2017 skilaði reksturinn hagnaði að fjárhæð kr. 3,3 milljónum króna, þannig að tap á Protis þessi tvö rekstarár var kr. 4,9 milljónir. Heildartekjur Protis þessi tvö ár voru kr. 86,3 milljónir og samanstóðu af sölu afurða, þjónustu, styrkja úr hinum ýmsu sjóðum þar með talið þróunarsjóði KS til ýmissa verkefna. Ef afkoma beggja fyrirtækjanna er lögð saman, kemur út hagnaður sem nemur kr. 2,6 milljónum króna. Eigið fé Iceproteins var í árslok 2017 kr. 22,6 milljónir og eigið fé Protís var í árslok 2017 neikvætt að fjárhæð kr. 4,3 milljónir.
Athygli skal vakin á því að kostnaður við vöruþróun og markaðsmál hefur verið gjaldfærður öll árin og því ekki neinar eignir skráðar í efnahagsreikningi félaganna, sem ekki eru áþreifanlegar. Færa má sterk rök fyrir því að ef sú leið hefði verið valin að halda fullum dampi í rekstri fyrirtækjanna og þeim mannauði, þekkingu og búnaði sem þar var til staðar, hefði eigandinn þ.e. FISK-Seafood ehf., ef hann hefði svo kosið, við sölu og eða sameiningu fyrirtækjanna við önnur fyrrtæki, fengið sinn eignarhlut metinn upp á tugi eða hundruða milljóna.
Ég hef verið stjórnarformaður þessara fyrirtækja þann tíma sem um ræðir fram í nóvember á síðasta ári og vil því skora á stjórnir FISK og KS að taka þessa ákvörðun til endurskoðunar og freista þess að fá dr. Hólmfríði Sveinsdóttur til þess að taka við keflinu aftur og efla þessi fyrirtæki enn frekar til hagsbóta fyrir íbúa þessa héraðs.
Jón Eðvald Friðriksson
fyrrverandi stjórnarformaður Iceproteins og Protis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.