Samþykkt að ráðast í forval vegna hönnunar menningarhúss á Sauðárkróki
Byggingarnefnd menningarhúss á Sauðárkróki fundaði 8. október síðastliðinn en nefndina skipa einn fulltrúi frá hverjum flokki sem sæti á í sveitarstjórn. Á fundinum var farið yfir drög að forvalsgögnum vegna þátttökurétts í lokaðri hönnunarsamkeppni vegna nýs menningarhúss á Sauðárkróki. Fulltrúar frá VSÓ ráðgjöf fóru yfir ferlið og í lok fundar samþykkti byggingarnefnd samhljóða að ráðast í forval. En hvað þýðir þetta nú? Feykir forvitnaðist um það hjá Einari E. Einarssyni forseta sveitarstjórnar.
Nú virðist einhver hreyfing komin á málefni menningarhúss á Sauðárkróki. Geturðu útskýrt hvað er að gerast og hvað á eftir að gerast áður en fyrsta skóflustunga verður tekin? „Það liggur fyrir þarfagreining á verkefninu en hún er jafnframt grunnur að þeim samningi sem var undirritaður við mennta- og menningarmálaráðherra vorið 2023 um byggingu menningarhúss á Sauðárkróki. Það sem gerst hefur síðan samningurinn var undirritaður er að búið er að ástandsmeta Safnahús Skagfirðinga, en tilvonandi menningarhús verður viðbygging við það hús ásamt endurbótum og breytingum á því húsi. Einnig er búið að verðmeta nákvæmar en áður hvað þær endurbætur gætu kostað. Nákvæmlega núna er verið að auglýsa eftir þátttakendum til að taka þátt í lokaðri hönnunarsamkeppni um hönnun hússins útfrá þeirri þarfagreiningu sem liggur til grundvallar. Gert er ráð fyrir að nýbyggingin verði 1.150 fm en Safnahúsið er í dag 1.091 fm. Þegar niðurstaða kemur í forvalið fer sjálf hönnunarsamkeppnin af stað. Vonandi verður komin niðurstaða í hana um mitt næsta ár og þá hverjir sjái um endanlega hönnun og útfærslu á verkefninu.“
Hvenær reikna má með fyrstu skóflustungu? „Skóflustungu ætti að vera hægt að taka í kjölfarið á þeirri vinnu. Samkvæmt samningnum við ríkið á framkvæmdum að ljúka fyrir árslok 2027.“
Í fundargerð byggingarnefndar menningarhússins mátti sjá að enginn frá sviðslistageiranum (tónlist og leiklist) var í nefndinni. Er einhver ástæða fyrir því? „Þarfagreiningahópurinn sem vann skýrsluna og kom með þær grunnhugmyndir sem nú er unnið eftir, fór mjög vel yfir þessi mál á sínum tíma út frá þeim forsendum sem lagt var upp með árið 2005, en forsaga þessa máls í heild er orðinn ansi löng. En, allavega, þessi hópur var með breiða samsetningu og fundaði með ýmsum hagsmuna- og áhugamannahópum sem tengdust menningu- og listum í Skagafirði, áður en þau komu sér saman um niðurstöðu. Það var því samráð haft við mismunandi menningargeira, t.a.m. Leikfélag Sauðárkróks. Ef skoðaðar eru niðurstöður hópsins þá er gert ráð fyrir bæði fjölnota sal og sal með sviði sem taki 180-200 manns í sæti sem er tvöföldun á þeim sal sem við höfum í Bifröst í dag. Byggingarnefndin sem nú hefur verið stofnuð hefur það hlutverk að fylgja þessu öllu eftir og kallar eftir atvikum ólíka aðila til fundar við sig meðan húsið er í hönnun til að tryggja að húsið uppfylli þær kröfur og þarfir sem gerðar eru til þess.
Hver eru næstu skref? „Mikilvægast núna er að verkefnið haldi áfram og að sá rammi sem teiknaður er upp í kringum það haldi. Fjárhagsleg aðkoma ríkisins er föst stærð en á sama tíma er líka mikilvægt að verkefnið heppnist vel. Ég er því fullur bjartsýni um að húsið rísi og verði flott innspýting í menningarlíf Skagfirðinga,“ segir Einar að lokum.
Þess má geta að byggingarnefndina skipa auk Einars (Framsóknarflokki) Álfhildur Leifsdóttir (Vinstri græn og óháðir), Gísli Sigurðsson (Sjálfstæðisflokki) og Jóhanna Ey Harðardóttir (Byggðalista). Fundinn sátu einnig nokkrir starfsmenn sveitarfélagsins; Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri, Hjörvar Halldórsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, Berglind Þorsteinsdóttir forstöðumaður byggðasafns, Sólborg Una Pálsdóttir forstöðumaður héraðsskjalasafns og Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.