Samstarf Blönduóssbæjar og Landbúnaðarháskólans um Yndisgróður
Bæjarráð Blönduóssbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að ganga til samstarfs við Landbúnaðarháskóla Íslands um verkefni sem kallast Yndisgróður. Tilgangur verkefnisins er að safna saman og velja út heppilegustu tegundir, kvæmi og yrki garðplanta fyrir íslenskar aðstæður með sérstaka áherslu á opin svæði, útivistarsvæði og skjólbelti.
Verkefni þetta vinnur Landbúnaðarháskólinn í samstarfi við Félag garðplöntuframleiðenda, Rannsóknarstöð Skógræktar Mógilsá og Grasagarð Reykjavíkur, auk fleiri aðila. Afrakstur verkefnisins verður listi yfir yrki og kvæmi sem mælt er með í ræktun hérlendis. Ávinningurinn er fyrst og fremst bætt gæðastýring í plöntuvali og garðplöntuframleiðslu.
Einn mikilvægasti þátturinn í þessu verkefni er að bera saman mismunandi plöntur við breytilegar veðurfarsaðstæður. Á hverjum stað er gert ráð fyrir tilraunareitum sem þurfa að vera um 1.000-5.000 fermetrar eftir því sem talið er henta á hverjum stað. Reiturinn verður skipulagður á þann hátt að nýtist sem tilraunareitur en einnig sem skrúðgarður eða útivistarsvæði. Hægt verður að gróðursetja plöntur vorið 2009 eða vorið 2010 ef að aðstæður krefjast þess.
Aðkoma sveitarfélagsins verður fyrst og fremst að útvega land, jarðvinnslu, uppbyggingu og frágang beða og umhirðu svæðisins
/Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.