Samstaða og kærleikur á aðventutónleikum Jólahúna
Hópur sem kallar sig Jólahúna stendur fyrir aðventutónleikum í Húnaþingi vestra og Austur-Húnavatnssýslu, þar sem tónlistarmenn úr báðum héruðum leiða saman hesta sína á fernum tónleikum.
Tónleikarnir verða á Skagaströnd 2. desember, á Blönduósi 3. desember og á Laugarbakka 4. desember. „Við erum með hljómsveit sem að æfir upp lögin og hóp af söngvurum , sem hafa verið frá 10-15 á hverju ári og þeir koma af öllu svæðinu,“ segir Skúli Einarsson á Tannstaðabakka, einn af umsjónarmaður tónleikanna. „Við köllum þetta rythmíska tónleika. Þó slæðast ef til vill inn nokkur róleg lög. Tónlistarstjórinn okkar, hann Daníel Geir Sigurðsson, skrifar þetta bara allt út á nótur fyrir mannskapinn. Svo erum við með magnaðan hljóðmann, sem er Íslandsmeistarinn í þeim bransa, hann Gunnar Smára Helgason. Hann fer svo beint frá okkur á jólatónleika Björgvins og stýrir þeim.“
„Tónleikarnir eru tvískiptir og á milli fyrri og seinni hluta þeirra er um hálftíma hlé þar sem boðið er upp á kaffi, jólaglögg og „kósýstemningu“ og jólalykt ilmar í húsinu. Kvenfélögin hafa gjarnan séð um þennan hluta fyrir okkur,“ segir Skúli ennfremur. Undir kaffinu er svo leikin hugljúf tónlist á fiðlu, kontrabassa og kassagítar. „Það náðist alveg þvílík stemning á Laugarbakka í fyrra með þessu fyrirkomulagi og jólaglöggið og jólalyktin gerði nú sitt. Ég vil hvetja fólk til að vera duglegt að sækja viðburði í heimabyggð og halda þar uppi fjörinu,“ segir Skúli að lokum.
Skúli segir að jafnframt sé venja að „leikmaður“ flytji ávarp á tónleikunum og sé það gjarnan í anda yfirskriftar tónleikanna sem er samstaða og kærleikur. „Við erum mjög ánægð með viðtökurnar enn sem komið er,“ segir Skúli, en fyrirtækjum hafa verið boðin pakkatilboð á tónleikana. Meðal styrktaraðila tónleikanna eru KVH og SKVH á Hvammstanga. Miðasalan er annars hjá Skúla í síma 898 0719. Tónleikarnir á Skagaströnd og Blönduósi hefjast klukkan 21 á föstudags- og laugardagskvöld og á Laugarbakka eru tvennir tónleikar, klukkan 13:30 og 17:00.
Þeir söngvarar sem fram koma á tónleikunum eru: Ástrós Elísdóttir, Ólafur E. Rúnarsson, Hrund Jóhannsdóttir, Kristinn Víglundsson, Helga Dögg Jónsdóttir, Valdimar Gunnlaugsson, Skúli Einarsson, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, Hugrún Sif Hallgrímsdóttir, Jón Ó. Sigurjónsson, Halldór G. Ólafsson og Sigríður Stefánsdóttir.
Hljómsveitina skipa Daníel Geir Sigurðsson, bassi og tónlistarstjórn, Guðmundur Hólmar Jónsson, gítar, Sigurvald Í Helgason, trommur og tæknistjórn, Elínborg Sigurgeirsdóttir, hljómborð og Ellinore Anderson, lágfiðla. Um hljóðblöndun sér Gunnar Smári Helgason.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.