Samstaða :: Áskorandapistill Jóhanna Guðrún Jóhannesdóttir, Lilla - brottfluttur Króksari
Ég vil byrja á að þakka Laufeyju Kristínu vinkonu minni fyrir áskorunina, ég tek henni með bros á vör. Við þekktumst ekki mikið þegar við bjuggum báðar á Sauðárkróki, en svo virðist sem Skagafjörðurinn haldi áfram að gefa utan landsteinanna, þvílík lukka að eignast vini úr heimahögunum í Kaupmannahöfn!
Ég ólst upp á Sauðárkróki og hugsa til þess með hlýju, eitt það dýrmætasta sem ég tók með mér þaðan og út í lífið eru yndislegu vinkonur mínar í Kvenfélaginu Geirmundi, ég er ótrúlega stolt af því að tilheyra þeim hópi. Eftir að hafa eignast fleiri góða vinahópa á lífsleiðinni þá finn ég hvernig tengingin við æskuvinkonurnar er og verður alltaf sérstök. Við dreifum okkur hingað og þangað, höfum farið mismunandi leiðir í lífinu og erum eins ólíkar og við erum margar.
Sumar hittast oftar innbyrðis en aðrar eins og gengur og gerist, en allur hópurinn reynir að koma saman í reglulegum og föstum hittingum. Það er árleg bústaðarferð, árshátíð með mökum, útlandaferð og svo auðvitað óvissuferðin, sem er alveg heilög. Samnefnarinn í öllu sem við gerum er sá að það er alltaf eins og við höfum hist síðast í gær. Ég hef oft heyrt því kastað fram að það sé merki um alvöru vináttu. Ég held að það sé alveg rétt og það er auðvitað fleira sem einkennir slíka vináttu, reyndar margt ef út í það er farið, en mig langar sérstaklega að minnast á samstöðuna, við stöndum saman og peppum hver aðra. Ég finn mjög sterkt fyrir því í þessum frábæra hópi.
Ég hef fundið sterkt fyrir samstöðu víða. Ég hef búið í Kaupmannahöfn í tæp 12 ár. Hér er sterkt Íslendingasamfélag og mikil samstaða innan þess. Ég segi auðvitað eins og góðum Skagfirðingi sæmir, hverjum sem vill heyra og ekki heyra, að ég sé Skagfirðingur – ætli það sé til Skagfirðingur sem hefur ekki brennandi þörf fyrir því að segja frá því að hann sé Skagfirðingur? Svei mér þá, ég held ekki. Ég tala nú ekki um þegar ég hitti annan Skagfirðing, þvílík veisla sem það er. Það er alltaf gott að finna þessa tengingu og samstöðuna sem henni yfirleitt fylgir.
Samstaða er alltaf mikilvæg. Að því sögðu þá vil ég minnast á aðra birtingarmynd samstöðu – jafnréttisbaráttuna. Nú handan við hornið er Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Í ár er þema dagsins „break the bias“. Kvenréttindabaráttan snýst nefnilega um jafnrétti - að allir séu jafnir. Þessi barátta varðar okkur öll, ekki bara okkur konurnar. Við hljótum öll ávinning af því, bæði sem samfélag og einstaklingar, að allir einstaklingar og hópar séu jafnir öðrum. Tilhugsunin um samfélag, laust við mismunun og staðalímyndir, á sama tíma og fjölbreytileikanum er tekið fagnandi og allir einstaklingar búa við sömu tækifæri, er alveg ótrúlega góð. Við erum vonandi öll sammála um það!
Ég vona innilega og trúi því, að það sé ríkjandi samstaða í Skagafirði í jafnréttisbaráttunni og að henni sé tekið fagnandi. Ég hvet ykkur öll kæru Skagfirðingar, að láta ykkur varða um þessi mál, sama hvaða hópum þið tilheyrið. Við berum öll ábyrgð í samfélaginu okkar. Lítum inn á við, skoðum okkar gildi, beitum okkur í baráttunni og höfum áhrif. Ég hef mikla trú á þessum málum í Skagafirðinum góða. Sýnum samstöðu!
Ég ætla að senda boltann yfir á bróður minn, Pál Inga Jóhannesson, sem einnig er búsettur í Kaupmannahöfn.
Áður birst í 8. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.