Samkeppniseftirlitið á villigötum
Um áratugi hafa bændur haft með sér öflug samtök á grunni félagshyggju og samvinnu .
Þær hugsjónir leiddu íslenska þjóð áfram alla síðustu öld á einu mesta framfaraskeiði í sögu þjóðarinnar. Bændasamtökin voru stofnuð fyrir rúmum 100 árum síðan til að efla og auka fram leiðslu og framleiðni íslenska landbúnaðar, tryggja matvæla- og fæðu öryggi þjóðarinnar og bjóða íslenskum neytendum upp á holla og góða matvöru á sem bestum verðum. Á Búnaðarþingi hafa bændur rætt sameiginleg hagsmunamál sín og þjóðarinnar og þannig hefur það verið sl. rúm 100 ár.
Nú kallar Samkeppniseftirlitið það brot á samkeppnislögum að bændur ræði mál sín. Samkeppniseftirlitið er eins og Fjármálaeftirlitið hluti af því eftirlitskerfi sem byggt var upp í einkavæðingu og taumlausri markaðshyggju stjórnvalda á undaförnum árum. Þessar eftirlitsstofnanir áttu að sögn að vernda hinn almenn borgara gegn einokun og sjálftöku græðgisaflanna. Gerðu þær það ? Nei, þvert á móti var þessum eftirlitsstofnunum samvinna og félagshyggja mikill þyrnir i augum.
Samkeppniseftirlit frá tímum einkavæðingarinnar
Ég hef aldrei borið mikið traust til Samkeppniseftirlitsins og sú ákvörðum þess að ráðast nú á bændur og samtök þeirra eykur ekki á trúnað minn til þess.
Að mínu mati er lagaumgjörð og áherslur Samkeppniseftirlitsins hluti af því kerfi sem leiddi hrun þess froðuhagkerfisins yfir okkur sem við nú tökumst á við. Samkeppniseftirlitið er hluti af þeirri döpru fortíð sem brýnt er að endurskoða frá grunni.
Ekki vil ég gefa eftir öflugan íslenskan landbúnað og sterkt félagskerfi bænda sem byggt er á samvinnu og félagshyggju fyrir einhver fáránleg lög og áherslur samkeppnislaga sem voru í litlum takti við hagsmuni þjóðarinnar eða íslenskan raunveruleika.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.