Samfylkingin játar á sig mannréttindabrot
Það er rétt að hrósa mótframbjóðanda mínum Þórði Má Jónssyni í Norðvesturkjördæminu fyrir hreinskiptna grein um sjávarútvegsmál í Feyki í gær en í henni gengst þessi frambjóðandi Samfylkingarinnar við skýlausri ábyrgð Samfylkingarinnar á mannréttindabrotum á íslenskum sjómönnum.
Í fimlegri vörn fyrir níðingsverkum Samfylkingarinnar þar sem mannréttindi eru fótumtroðin og ekkert gert með álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna er reynt að skella allri þeirri skuld á samstarfsflokkinn, þ.e. fyrst Sjálfstæðisflokkinn og síðan væntanlega VG, að ekkert skuli þokast í átt til móts við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þetta er auðvitað mjög billegur málflutningur þar sem ríkisstjórnin ber sameiginlega ábyrgð á stjórnarathöfnum ráðherra. Málflutninginn hefur Samfylkingin stundað í tíma og ótíma, ekki aðeins varðandi mannréttindabrotin, heldur sömuleiðis varðandi afstöðu flokksins til hrefnuveiða.
Það hlýtur að vera ömurlegt hlutskipti fyrir fólk sem telur sig vilja tilheyra stjórnmálaafli sem beitir sér fyrir jöfnuði og mannréttindum að hafa ekki einu sinni fyrir því að setja sig í samband við þá sem brotið hefur verið á og hafa leitað út fyrir landsteinana eftir réttlæti og halda því á sama tíma fram að eitthvað sé verið að gera, þessi mál séu á hreyfingu með því að setja eitthvert merkingarlaust gúmmíákvæði inn í stjórnarskrána.
Það væri eftir Samfylkingunni að gera með því lítið úr stjórnarskránni og blása merkingarlausar sápukúlur sem hefðu nákvæmlega enga þýðingu fyrir atvinnuréttindi fólksins sem hyggst sækja í sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Það er rétt að taka það fram að þingmenn Samfylkingarinnar eiga gríðarmikla sök á því hvernig kerfið hefur þróast. Í því samhengi má nefna að heilög Jóhanna var meðal þeirra þingmanna sem samþykktu það óhæfuverk að heimila framsal veiðiheimilda og gera atvinnuréttindi landsmanna vítt og breitt að söluvöru og verðfella með því eignir og fyrirtæki fólksins í sjávarbyggðunum.
Sigurjón Þórðarson, líffræðingur í öðru sæti á lista Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæminu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.