Sameining til að sækja tækifæri

Það eru að verða komin 14 ár síðan ég og mín fjölskylda fluttum á Blönduós, aftur heim. Ég hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun og mér líður vel í Austur-Húnavatnssýslu. Framan af skipti ég mér ekki af málefnum sveitarfélagsins en á því varð óvænt breyting árið 2014 og var ég þá allt í einu kominn í sveitarstjórn. Margt hefur breyst á þessum tíma og annað ekki.

Það vantar ekki tækifærin í Austur-Húnavatnssýslu. Það vitum við sem búum hér og störfum. Það sem okkur hefur vantað er svigrúm og slagkraftur til að sækja tækifærin og koma okkar hagsmunum á framfæri við fjárfesta og stjórnvöld. Ein af ástæðum þess að okkur hefur skort slagkraft er að hér eru fjögur sveitarfélög þar sem allir eru að vinna í sömu daglegu verkefnunum og ekki tími fyrir annað.

Með því að sameinast í eitt sveitarfélag verðum við með einn sveitarstjóra sem getur spilað sókn og aðra stjórnendur til að leysa önnur dagleg verkefni. Með því að fækka byggðasamlögum og einfalda stjórnkerfið getum við skapað tíma og tækifæri fyrir kjörna fulltrúa að hitta þingmenn og ráðherra og berjast fyrir hagsmunum Austur-Húnvetninga.

Það eru tækifæri um allt. Í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, landbúnaði, í tengslum við gagnaverið og í opinberri þjónustu. Mín skoðun er skýr. Við þurfum að sameinast til að auðvelda okkur að sækja tækifærin og vaxa.

Að nýtt sveitarfélag tali einni röddu við stjórnvöld til framdráttar fyrir samfélagið er mjög mikilvægt og nauðsynlegt að mínu mati. Okkur hefur fækkað - hvað má okkur fækka mikið til að þjónusta skerðist? Við viljum meiri þjónustu á flestum stigum og má þar t.d. nefna dagvistun fyrir aldraða, hún er ekki til staðar hjá okkur en hún er í Húnaþingi vestra og Skagafirði. Sameinuðum sveitarfélögum. Sameining krafta eykur styrk.

Við erum að mörgu leyti sameinuð, við sækjum vinnu út um alla sýslu - horfið yfir sviðið - hverjir eru að vinna hvar? Það er Blönduósingur í sveitarstjórn á Skagaströnd, það eru tveir Skagstrendingar í sveitarstjórn á Blönduósi, hvað er að óttast? Lagfæringar á Þverárfjalls/ Skagastrandarvegi eru að hefjast sem munu auka öryggi og stytta leiðina á milli þéttbýlu hverfanna, sem er þó ekki löng í dag.

Uppleggið er að fjölga sveitarstjórnarmönnum í 9 sem ætti að geta tryggt okkur fleiri raddir úr samfélaginu og það skiptir máli, vinnan miðar að því að sem mest sátt geti orðið um mál og málefni.

Reynsla sveitarfélaga sem hafa gengið í gegnum sameiningu sýnir að í mörgum tilfellum er sparnaður í yfirstjórn nýttur til að efla þjónustu, t.d. félagsþjónustu og almenningssamgöngur. Við fáum rúmlega 900 milljónir króna til að borga niður skuldir og þróa þjónustu og stjórnsýslu.

Hver er staðan? Hún er misjöfn milli sveitarfélaganna innan svæðisins, en þó er ekki svo mikill munur. Við breytum ekki því sem búið er en við getum haft áhrif á framtíðina okkar samfélagi til heilla.

Ég fyrir mitt leyti er hlynntur sameiningu og mun kjósa með henni, þannig tel ég framtíð okkar Húnvetninga best borgið. Á hunvetningur.is eru upplýsingar sem ég hvet alla til að kynna sér og mæta á íbúafundi sem hefjast í næstu viku.

Guðmundur Haukur Jakobsson,
oddviti Blönduósbæjar og fulltrúi í Samstarfsnefnd.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir