Sagnakvöld í Kakalaskála annað kvöld

Það verður Sagnakvöld í Kakalaskála laugardagskvöldið 24. ágúst en þar stíga á stokk þau Einar Kárason, Óttar Guðmundsson og Jóhanna V. Þorvaldsdóttir sem kveður rímur. Erindi Einars kallast Að elta auðnustjörnuna en Óttar mun fjalla um hinn litríka Sigurð Breiðfjörð, samskipti hans við Fjölnismenn og ýmislegt fleira.

Á síðu Kakalaskála segir um erindi Einars: „Að elta auðnustjörnuna“ byggir á frásöguþættinum „Leitin að Livingstone“ en um hann segir Halldór Guðmundsson (bókmenntafræðingur og höfundur m. a. ævisögu Halldórs Laxness): „En áhrifamesti kaflinn segir frá því þegar þeir feðgar, Einar og Kári faðir hans, Gunnarsson, héldu lengst austur á land til að verða sér úti um tóbak í verkfalli opinberra starfsmanna 1984. Í frásögninni tekst Einari það sem hann hefur dáðst að hjá Hamsun og fleiri höfundum, að hrífa lesandann með sér þótt ekki sé sagt frá stórmælum, eiginlega bara löngum bíltúr þeirra feðga í leit að sígarettum í þjóðvegasjoppum. En auðvitað er þetta öðru fremur lýsing á Kára, mjólkurfræðingi, leigubílstjóra og stórreykingamanni, og sambandi þeirra feðga. Þetta er ferð bæði austur og aftur, til æsku og uppruna. Kári var haldinn þeim sjúkdómi sem nú er kallaður geðhvarfasýki og á unglingsárum Einars var hann hátt á annað ár á sjúkrahúsi, illa haldinn; Einar segir viðkvæmnislaust frá því þegar hann heimsótti föður sinn með litlu systur sína í eftirdragi kolruglaðan á geðdeildina. En þetta er líka sagan af styrk Kára og æðruleysi, sögð með fáum góðum tilsvörum og minningarbrotum. Livingstone er ekki að leita í myrkviðum Afríku, heldur heimsálfu hugans."

Aðgangseyrir er kr. 4000 kr. en opið verður á barnum. Þá verður hægt að gæða sér á grænmetis- eða fiskisúpu og heimabökuðu brauði frá Austan Vatna frá kl. 18:00 - 19:45. Verð 3000 kr. og 3500 kr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir