Saga hrossaræktar – upphafið :: Kristinn Hugason skrifar

Knörr landnámsmanns um borð með landnámsmanninum eru eiginkona og börn, vinnuhjú og annað heimilisfólk, þ.m.t. vopnfærir menn. Helstu amboð, vistir og sáðkorn og búfénaður til að geta lifað af í nýju landi. Gripirnir voru valdir af kostgæfni þar eð rými um borð í skipunum var mjög takmarkað. Í eftirminnilegri ræðu við setningu þings LH árið 1990 varpaði Hjörtur E. Þórarinsson formaður BÍ fram þeirri kenningu að gripirnir hefðu og iðulega verið ungir, ekki fullvaxta en kyngæðingar að ætt, gagngert til að spara pláss. (Teikning á bls. 21 í bókinni Íslenski hesturinn, höf. Gísli B. Björnsson og Hjalti Jón Sveinsson o.fl., útg. MM og SÍH 2004).
Knörr landnámsmanns um borð með landnámsmanninum eru eiginkona og börn, vinnuhjú og annað heimilisfólk, þ.m.t. vopnfærir menn. Helstu amboð, vistir og sáðkorn og búfénaður til að geta lifað af í nýju landi. Gripirnir voru valdir af kostgæfni þar eð rými um borð í skipunum var mjög takmarkað. Í eftirminnilegri ræðu við setningu þings LH árið 1990 varpaði Hjörtur E. Þórarinsson formaður BÍ fram þeirri kenningu að gripirnir hefðu og iðulega verið ungir, ekki fullvaxta en kyngæðingar að ætt, gagngert til að spara pláss. (Teikning á bls. 21 í bókinni Íslenski hesturinn, höf. Gísli B. Björnsson og Hjalti Jón Sveinsson o.fl., útg. MM og SÍH 2004).

Íslenski hesturinn kom hingað til lands við landnám. Upprunastofninn hefur verið blandaður eins og mannfólkið en þó að uppistöðu til frá Noregi vestanverðum. Á síðustu öld, þegar ýmsir áhugamenn voru að grúska í upprunanum, létu sumir sér fljúga í hug að hesturinn væri upprunninn mikið austar en frá Noregi og veltu jafnvel upp arabíska hestinum í því sambandi og þá að sum hross á Íslandi væru út af honum komin; voru það þá hross þau sem kennd voru við Svaðastaði (Svaðastaðastofn) sem það átti um. H.J. Hólmjárn (1891-1972) Skagfirðingur sem átti fjölskrúðugan náms- og starfsferil utan lands sem innan og endaði feril sinn sem bóndi á Vatnsleysu í Skagafirði 1952-1971, þar sem hann einhenti sér í ræktun hrossa af Svaðastaðastofni, og kennari á Hólum 1962-1969, hélt þessari skoðun mjög á lofti í kennslu sinni (Jón Viðar Jónmundsson, nemandi á Hólum veturinn 1967-´68, munnleg heimild 25. ágúst 2021, um ummæli Hólmjárns sérstaklega en almennt: Íslenskir búfræðikandídatar, útg. FÍBK, Reykjavík 1985 og Árbók bóndans 1985, Hrossakynbótabúið á Hólum, upphaf þess og tilgangur, Jón Friðriksson). Seinni tíma rannsóknir hafa svo leitt í ljós blóðskyldleika íslenska hestsins við hross úr austurvegi og er það rakið til ferða víkinga á þeim slóðum. En engar sönnur færir það á kenningarnar um arabíska hestinn.

Fyrir liggur að þegar landnemarnir komu hingað til lands komu þeir með búfénað í skipum sínum sem gerði þeim kleift að lifa af á nýjum stað. Skipsrúmið var hins vegar afar takmarkað svo augljóst er að þeir hafa komið með úrval gripa heiman frá sér, auk þess að hafa rænt einhverju álitlegu á leið sinni. Rétt eins og gert var fyrr og skýrir austrænan blóðskyldleika hestsins. Þannig er til viðbótar skyldleiki við hross á Hjaltlandseyjum til staðar. Hesturinn hefur svo varðveist hér á landi allar götur síðan hreinræktaður eða svo gott sem, stöku sagnir eru um hross af erlendum uppruna hingað komin, s.s. hinn gauski hlaupari sem um er getið í Þorskfirðingasögu og var kornalinn sumar sem vetur. Því er hægt að fullyrða að ekki hafi innblöndun í kynið orðið svo nokkru skipti. Íslenski hesturinn er því það sem kallað er hreinræktað landkyn.

Sagnir herma að fornmenn hafi stundað hrossarækt en ekki er minnst á kynbætur annars búpenings. Höfðingjum sögualdar þótti sómi af að eiga samstæð stóð og þar væri metfé að finna. En hvað orðið metfé varðar er upphafleg merking þess, að um gripi sé að ræða sem hafi sjálfstætt verðgildi, þeir séu metnir til verðs á grunni eigin ágætis en þá var í gildi fornt verðmat (landaurareikningur) og samkvæmt því gekk búfé almennt kaupum og sölum á föstu verðlagi. Þegar frá leið og hag þjóðarinnar hnignaði varð náttúruúrvalið einrátt og vitaskuld varð á þessum langa tíma náttúrufarsbundin mótun, hvoru tveggja á landsvísu og héraðabundinn breytileiki myndaðist sem þýðir að hross í einstökum héruðum urðu samstæð að gerð og útliti en greina mátti afgerandi mun á þeim og hrossum annars staðar að. Þannig mótaðist landkynið íslenski hesturinn í gegnum aldirnar eins og við þekkjum hann, með sín sérkenni og svo innan hans hinir svokölluðu stofnar. Þó sá breytileiki sé nú að mestu horfinn og þeirri hugsun sé og fyrir löngu búið að ryðja úr vegi í krafti ferskustu þekkingar í búfjárkynbótafræði.

Fyrsta hvatning til hrossakynbóta
Þannig liðu aldirnar í kyrrstöðu, íslenski hesturinn sinnti skyldum sínum sem þarfasti þjónninn á þessu langa tímabili. Landið hefði verið óbyggilegt án hans sem nýttist til ferðalaga um veglaust land og sem burðardýr en hjólið var svo gott sem óþekkt lengi vel hér á landi. Hesturinn og þjóðin hafa þannig átt órofa samleið og þjóðmenning og hestatengd menning er samþætt, þótt augljóst sé að á fyrri öldum, rétt eins og í dag, hafi samskiptin við hestinn höfðað misjafnlega til fólks. Þannig er í dag að ekki eru allir bíleigendur bílamenn og þannig voru ekki allir þeir sem áttu mikið undir hestinum í gegnum aldirnar, hestamenn. En þó voru á öllum öldum Íslandsbyggðar til menn sem nutu samvista við hestinn, samvistanna vegna og stunduðu hestamennsku að einhverju marki sem íþrótt eins og fjallað hefur verið um í fyrri greinum.

Á 18. öld ruddi sér til rúms svokölluð upplýsingastefna sem setti mark sitt á andlegt líf og stjórnmál, einnig kölluð fræðslustefna eða skynsemisstefna. Þó að stefnan fælist í háleitum viðfangsefnum og byggðist á hugsun heimspekinga og náttúruvísindamanna í fremstu röð í allri sögu mannkyns, s.s. Descartes, John Locke, Francis Bacon og Isaac Newton, hafði stefnan líka bein áhrif á afstöðu manna til daglegra viðfangsefna. Sú grunnsannfæring ruddi sér til rúms að betur mætti gera væri mætti þekkingarinnar beitt. Áhrif stefnunnar bárust hingað til lands frá Danmörku um miðja 18. öld og þá jókst áhersla á hvaðeina sem til framfara taldist, þ.m.t. í landbúnaði; jarðrækt og búfjárrækt (Einar Laxness, Íslandssaga, Alfræði Vöku-Helgafells, Reykjavík 1995). Feðgarnir Ólafur Stefánsson [Stephensen] (1731-1812) stiftamtmaður og sonur hans Magnús (Ólafsson) Stephensen (1762-1833) konferensráð, lögmaður og dómstjóri í Landsyfirrétti voru mjög fylgjandi upplýsingastefnunni og er Magnús raunar talinn helsti boðberi hennar hér á landi, þeir feðgar beittu sér m.a. fyrir félagsstofnunum og útgáfustarfi í anda stefnunnar (Íslenska alfræðiorðabókin H-O, Örn og Örlygur 1990). Þeir feðgar báðir þekktu vel til hrossakynbóta í nágrannalöndum okkar og birti Ólafur Stephensen ritgerð í riti Lærdómslistafélagsins árið 1788. Er það hvatning til landsmanna, að bæta hrossin með úrvali og marka ræktunarstefnu. Magnús Stephensen skrifaði grein í Klausturpóstinn árið 1825, þar segir hann hvernig „heppilegast sé að framkvæma hrossakynbótina“: „með vönduðu vali stóðhesta og stóðkapla til undaneldis, einkum af gæðingakyninu, en fengjum bægt bikkjukyninu frá, og við þvílíkt val haft fyrir augum bæði gang og hraustleik, gervi og þrótt, reist vel lagað vaxtarlag, lit, ógallaða, góða og svarta hófa, og annað sem reyndir menn og hyggnir þekkja prýða góða hesta; en í uppeldinu veitt þeim góða forsorgun og hirðingu, og varnað þeim samblandi við bikkjukynið, hvað er mun erfiðast. Þá mundum við, eftir fá ár, sjá nýtt og gjörfulegt gæðinga- og vinnuhestakyn upp spretta í voru landi, af eigin rammleik og stofni, oss hér hentugra og girnilegra í öllu, en stærra útlent.“ (Theodór Arnbjörnsson: Hestar. Búnaðarfélag Íslands 1931: 86-87) .

Niðurlagsorð
Á grunni þessara tilvitnuðu orða má segja að allt vort starf hafi síðan grundast sem rakið verður í greinum hér í blaðinu á næstu mánuðum og misserum.

Kristinn Hugason
forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir