Sæluvika Skagfirðinga og atvinnulífssýning framundan

Prúðbúnar konur við setningu Sæluviku 2017. Mynd: PF
Prúðbúnar konur við setningu Sæluviku 2017. Mynd: PF

Sæluvika Skagfirðinga þetta árið verður haldin dagana 29. apríl til 5. maí. Dagskrá Sæluviku er að jafnaði fjölbreytt þar sem hver menningarviðburðurinn rekur annan, vítt og breytt um héraðið. Í tengslum við Sæluviku verður einnig haldin atvinnulífssýning í íþróttahúsinu á Sauðárkróki dagana 5.-6. maí nk.  Samhliða sýningunni verður haldið upp á 20 ára afmæli Sveitarfélagsins Skagafjarðar en á þessu ári eru liðin 20 ár síðan ellefu sveitarfélög í Skagafirði sameinuðust í eitt.

Atvinnulífssýningin verður opin á laugardegi frá kl. 10-17 og frá kl. 10-16 á sunnudegi . Hún verður með sama sniði og fyrri sýningar sem haldnar voru árin 2010, 2012 og 2014. Þar gefst sýnendum kostur á að kynna starfsemi sína í sérstökum básum í íþróttahúsinu en jafnframt er heimilt að selja þar vörur. Einnig verða haldnar nokkrar málstofur um fjölbreytt málefni sömu daga.  Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á þá fjölbreytni sem finna má í Skagafirði á sviði þjónustu, framleiðslu, mannlífs og menningar og vekja jákvæða athygli á skagfirsku samfélagi, kynna sprota og nýsköpun í atvinnulífi og síðast en ekki síst að skapa skemmtilegan viðburð í lok Sæluviku Skagfirðinga. Nánari upplýsingar um atvinnulífssýninguna má finna hér.

Þeir sem hafa áhuga á að setja upp viðburð í Sæluviku og vilja auglýsa hann í Sæluvikudagskránni  sem gefin verður út af því tilefni eru beðnir að hafa samband við Bryndísi Lilju Hallsdóttur; bryndisl@skagafjordur.is eða í síma 455-6000, fyrir 25. mars 2018. Þá er þeim sem hyggjast leigja bás á atvinnulífssýningunni bent á að huga að því í tíma hvort endurnýja þurfi kynningarefni og annað slíkt fyrir sýninguna. 

Ennfremur er óskað eftir tilnefningum fyrir Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2018 sem veitt eru árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel í að efla skagfirskt samfélag. Tilnefningar má senda á netfangið sigfus@skagafjordur.is eða skila inn skriflega í afgreiðslu Ráðhússins á Sauðárkróki. Þær þurfa að berast fyrir fimmtudaginn 5. apríl nk. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir