Sælla er að gefa en þiggja...
Þorgerður Hrefna Árnadóttir (58) frá Innvík í Lýtingsstaðahreppi hringdi reið í Dreifarann og sagði að nú gæti hún ekki lengur orða bundist. „Við hér frammi í sveit erum alltaf látin sitja á hakanum, ykkur þarna úti á Krók finnst aldrei neitt merkilegt gerast hjá okkur í sveitinni. Þið voruð ekki að segja frá því þegar ég var að gefa skólanum hérna! Nei! Ja, ég er í það minnsta búin að fá mig fullsadda á þessu óréttlæti.“
Hvað höfum við gert og hvað segirðu, varstu að gefa skólanum gjöf? -Já, það var ég sko að gera. En þið þarna á Króknum hringsnúist bara alltaf ef þessi Baltivin byrjar eitthvað að sperra sig. Jahá, þið strjúkið ykkur upp við hann eins og malandi kettir.
Hvað ertu að meina Þorgerður? -Láttu nú ekki eins og þú vitir ekki hvað ég er að tala um. Það er alltaf eitthvað svona: Baltimar vinnur til verðlauna, Baltimar fær gesti og Baltimar hitt. Og já, nú síðast, Baltimar gefur klippigræju. Það sauð bara á mér þegar ég sá þetta. Það er alveg makalaust að fylgjast með þessum tvískinnungi alltaf hreint og nú hef ég bara fengið nóg af þessu óréttlæti. Er þetta vegna þess að ég er úr sveitinni, nú, eða vegna þess að ég er ...KONA?!
Róleg Þorgerður, hvað varstu að tala um gjöf. Hvaða gjöf var þetta? -Gjöf!? Segðu heldur gjafir góði minn. Ég er sko búin að gefa skólanum hérna tvisar.
Tvisvar? Og bara núna nýlega? -Nýlega jájá, það má alveg segja það, fyrra skiptið á afmælisdaginn minn 16. febrúar 1995 og svo nákvæmlega tíu árum síðar þegar ég hélt upp á fimmtugsafmælið. Og var eitthvað minnst á þetta í þessum ræfils snepli ykkar? Nei, nei, nei.
Hvað varstu að gefa skólanum Þorgerður? -Það var eins, já bara alveg eins og hann þarna Baltimon gaf þarna um daginn – ég gaf klippigræjurnar mínar. Ég er nú búin að vinna við þessa iðn svona meðfram öðru síðustu 20 eða 25 árin. Þau kunnu að meta þetta í skólanum hérna þó þetta þætti ekki blaðamatur hjá ykkur úti á Krók.
Já, þetta hafa heldur betur verið veglegar gjafir Þorgerður. Ég biðst nú afsökunar á að hafa ekki sagt frá þessu. Voru þessar klippigræjur mikið notaðar hjá þér? -Já þetta var orðið töluvert, alveg töluvert, og ég segi það nú ekki að bitið var orðið nokkuð lélegt en þetta hafa örugglega verið þrír og kannski fjórir hausar á viku. Kannski engin uppgrip í þessu en það er náttúrulega svo mikið af svona hárgreiðslukonum úti á Krók og fólkið hérna í sveitinni nýtir oft tímann í svona umstang og fínerí ef það þarf að skreppa úteftir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.