Sækist eftir fyrsta sætinu
BB segir frá því að Einar Kristinn Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvestur-kjördæmi, hyggst bjóða sig fram til 1. sætis flokksins í næstu alþingiskosningum. „Ég ætla að sækjast eftir því að leiða lista sjálfstæðismanna í ljósi þeirra breytinga sem verða á flokknum en foringi okkar Sturla Böðvarsson hefur ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri og Herdís Þórðardóttir ætlar heldur ekki að bjóða sig fram heldur“, sagði Einar Kristinn í samtali við bb.is.
„Ljóst er að það verða þó nokkrar breytingar á flokknum í næstu kosningum því fyrir utan þingmennina eru ýmsir frambjóðendur sem voru á lista okkar í síðustu kosningum búnir að lýsa því yfir að ætli ekki í framboð núna. Við þessar aðstæður tel ég að styrkur sé af minni reynslu. Ég leiddi á sínum tíma framboðslista flokksins á Vestfjörðum í tvennum kosningum og skipaði annað sætið á framboðslistanum frá upphafi nýja Norðvesturkjördæmisins. Síðan hef ég starfað sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ég tel að það skipti miklu máli að vera maður með reynslu á svona umbrotstímum, bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og kjördæmið.“
Einar Kristinn segist hafa fengið góðar viðtökur við þessari ákvörðun sinni. „Margir hafa haft samband við mig eftir að þessir hlutir lágu fyrir og ég hef fengið góða hvatningu og vænti mjög góðs af samstarfinu.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.