Sadio Doucoure spilar með Stólunum í vetur
Í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Tindastóls segir að samið hafi verið við franska leikmanninn Sadio Doucoure um að leika með karlaliðinu í Bónusdeildinni á komandi tímabili. „Ég er mjög spenntur að koma og spila fyrir Tindastól,” segir Sadio. „Ég hef átt góð samskipti við bæði þjálfara og formann klúbbsins. Ég hef spilað með Martin Hermannssyni og spurði hann út í liðið og samfélagið og hann sagði mér bara góða hluti svo ég er fullur tilhlökkunar að koma í þennan bæ sem elskar körfubolta.“
Sadio verður 32 ára gamall í næstu viku. Hann er tveir metrar á hæð og spilaði síðast með liði US Monastir í Túnis.
Hann segir fjölskyldu sína vera spennta fyrir að koma til Íslands. „Okkur hefur lengi langað til að heimsækja landið og við erum spennt að fá tækifæri til að búa þar og spila körfubolta. Ég hlakka til að kynnast liðinu og samfélaginu og leggja mitt af mörkum til að vinna leiki og ná í titla”
Benedikt Guðmundsson segir að Sadio sé mikill íþróttamaður og frábær varnarmaður. „Ég hreifst mikið að dugnaði hans á vellinum og þeirri orku sem hann býr yfir. Við viljum tefla fram góðu varnarliði og ætlumst til að allir leikmenn liðsins séu vinnusamir á vellinum og leggi sig fram fyrir Tindastól. Sadio mun klárlega gera það. Þá er hann margrómaður karakter” segir Benni.
„Það er spennandi tímabil framundan hjá klúbbnum á öllum vígstöðvum. Koma Sadio mun styrkja karlaliðið á öllum sviðum , bæði innan vallar sem utan,” segir Dagur Þór Baldvinsson formaður körfuknattleiksdeildarinnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.