Rúnar Birgir fyrstur Íslendinga til að verða tæknifulltrúi FIBA

Rúnar Birgir Gíslason. Mynd: Márus Björgvin.
Rúnar Birgir Gíslason. Mynd: Márus Björgvin.

Varmhlíðingurinn Rúnar Birgir Gíslason lauk nú á dögunum námskeiði til að verða tæknifulltrúi FIBA (e. FIBA Technical Delegate), en FIBA stendur fyrir Alþjóða körfuknattleikssambandið.

Á vef Körfuknattleikssambands Íslands kemur fram að síðastliðna átta mánuði hefur Rúnar farið yfir lesefni, hlustað á fyrirlestra, tekið verkefni og próf á námsvef FIBA, og var námskeiðið sem hann sótti í Ljublijana í Slóveníu nú á dögunum, lokahnykkurinn á náminu. Hann þarf þó að bíða til 1. september til að geta formlega talist Tæknifulltrúi FIBA.

Tæknifulltrúi FIBA er ekki gamalt hlutverk, en það var sett á laggirnar árið 2017. Tæknifulltrúi er sendur á landsleiki til aðstoða liðin við að framkvæma leikinn eftir öllum FIBA stöðlum, og vera um leið augu og eyru FIBA á staðnum.

„Atriði sem tæknifulltrúi þarf að hafa þekkingu á eru mörg svo sem öryggismál, markaðsmál, lyfjaeftirlit, sjónvarpsmál, leikreglur, búningar, taka út hótel og leikstaði, aðgengi fjölmiðla, vera eftirlitsmaður á meðan leiknum stendur og fleira.“ Segir ennfremur í frétt KKI.is

Rúnar Birgir hefur verið að sinna svipuðum störfum fyrir alþjóða körfuknattleikssambandið en undanfarin ár hefur hann verið FIBA eftirlitsmaður (e. commissoner) og sem slíkur mun hann stýra U20 móti kvenna í A-deild í sumar.

„KKÍ óskar Rúnari Birgi til hamingju með nafnbótina og traustið sem FIBA sýnir honum með því að bjóða honum þetta hlutverk og óskar honum velfarnaðar í þeim verkefnum sem hann mun fá í framtíðinni en Rúnar Birgir er fyrstur Íslendinga til verða tæknifulltrúi FIBA.“  Segir að lokum á vef KKÍ og tekur Feykir hraustlega undir það.

 

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir