Þóranna Ósk hlýtur afreksbikar - „Rós í hnappagat Skagfirðinga“
Eins og greint hefur verið frá hér á vefnum voru styrkir úr Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga afhentir sl. föstudag. Við sama tækifæri var afhentur afreksbikar, farandbikar til minningar um Stefán Guðmundsson fv., stjórnarformann KS og konu hans Hrafnhildi Stefánsdóttur. Er þetta í fimmta skipti sem bikarinn er afhentur og í þetta sinn var það hin unga og efnilega frjálsíþrottakona Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir sem hlaut bikarinn.
Þóranna Ósk, sem kjörin var Íþróttamaður Skagafjarðar 2015 á dögunum, er 19 ára gömul og hefur æft frjálsar íþróttir við góðan orðstý. Hún er sexfaldur Íslandsmeistari í frjálsum 2015, bæði í hennar aldursflokki 15-22 ára og í fullorðinsflokki. Hér má lesa nánar um afrek hennar.
Faðir hennar Sigurjón Viðar Leifsson tók stoltur við bikarnum fyrir hönd Þórönnu. Það var Stefán Vagn Stefánsson, sonur Stefáns og Hrafnhildar, sem afhenti bikarinn. Við tilefnið sagði hann Þórönnu Ósk vera rós í hnappagat Skagfirðinga, og að hún hafi skarað fram úr í sinni íþrótt, bæði heima í héraði og utan, og væri öðrum til fyrirmyndar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.