Rómantískir kjólar og töff jakkaföt í fermingartískunni
Já, það eru tískustraumar í fermingarfatnaðinum eins og í öllu öðru. Undanfarin ár hefur hann reyndar verið nokkuð svipaður, helstu breytingar hafa verið á sniðum og eitthvað í litum. Mest áberandi eru sætir kjólar á stelpurnar og flott jakkaföt á strákana.
NTC hf. hefur verið leiðandi í fermingartískunni undanfarin ár en það eru auðvitað margar aðrar verslanir að bjóða upp á fermingarfatnað bæði á stelpur og stráka. En það sem NTC hf. hefur umfram aðra er að þau hafa farið þá leið að láta sérsauma þessar línur fyrir sig. Allt hönnunarferlið sjálft er unnið hér heima en fatnaðurinn er saumaður erlendis. Árlega gefa þau út fermingarbækling þar sem hægt er að skoða úrvalið hverju sinni fyrir bæði kynin.
„Skater“ sniðið mest áberandi
Það sem er mest einkennandi í fermingarfötunum fyrir stelpurnar eru kjólar úr blúndu, siffoni og léttum ljósum efnum. Þá er „skater“ sniðið mest áberandi en það er þröngt að ofan sem víkkar svo út frá mittinu og nær niður á mið lærin. Þetta á líka við um pilsin en þá eru þær í þröngum bolum við. Þá virðast sokkabuxurnar ráða ríkjum núna, bæði húðlitaðar, svartar og jafnvel smá mynstraðar. Ermar virðast ekki haldast inni í fermingartískunni í ár heldur hafa stuttir blazer jakkar tekið við. Fylgihlutir eins og skart og hárskraut verður auðvitað að fylgja með en það á að vera nett og fallegt.
Vanda þarf valið á skótauinu og vera vakandi fyrir því að barnið er í skónum allan fermingardaginn. Þeir þurfa því að vera þægilegir, annaðhvort flatir eða með litlum hæl. Þá er gott að hafa í huga að ungar stelpur sem ekki kunna að ganga á hælaskóm getur verið furðuleg sjón. Niðurstaðan á dömulínunni er því falleg og saklaus með rómantísku ívafi.
Strigaskór draga úr hátíðleikanum
Fermingarfötin fyrir strákana er aftur á móti ekki jafn saklaus. Mikið er um jakkaföt í dökkum litum eins og gráu, bláu og svörtu. Skyrtan með þeim er yfirleitt látlaus og dressið poppað upp með litaðri slaufu eða bindi. Þá hafa niðurþröngar dökkar gallabuxur orðið vinsæll kostur hjá strákunum seinustu ár. Með þeim er flott mynstruð skyrta og stakur jakkafatajakki. Í langflestum tilvikum er svo splæst í eina strigaskó til að draga aðeins úr hátíðleikanum, sem er ótrúlega sniðugt og hagkvæmt fyrir foreldrana. Niðurstaðan á drengjalínunni er því karlmannleg og töff.
Kynna sér úrvalið áður en farið er af stað
Ég vil samt ráðleggja foreldrum að gefa sér góðan tíma og kynna sér bæði hvaða verslanir eru með fermingarfatnað og hvað þær eru að bjóða upp á áður en lagt er af stað með krakkana. Það er ekkert jafn sorglegt og þegar foreldrar mæta inn í verslun, nokkra daga fyrir sjálfan fermingardaginn, í stresskasti yfir því að vera ekki búin að finna neitt. Ekkert passar eða hentar, og krakkinn er ósáttur. Þetta getur valdið leiða og jafnvel kvíða hjá krökkunum yfir sjálfum fermingardeginum sem getur skilað sér í brotinni sjálfsmynd og vanlíðan. Gott skipulag kemur í veg fyrir þetta og höfum hugfast að þetta er þeirra dagur!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.