Roðagyllum heiminn og Ísland líka
Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú á tímum kóvíd-19 að vekja athygli á þeirri staðreynd að ofbeldi gegn konum hefur aukist í heiminum. Dagana 25. nóvember til 10. desember munu Alþjóðasamtök Soroptimista, ásamt fjölda annarra félagasamtaka, standa fyrir sextán daga átaki á heimsvísu sem nefnist „Orange the world“. Markmiðið er að vekja athygli á ofbeldi gegn konum undir heitinu „Roðagyllum heiminn“. Þessi litur táknar bjartari framtíð án ofbeldis.
Í ár beinist sextán daga átakið að áhrifum kóvíd-19 á kynbundið ofbeldi. Í kjölfar faraldursins hefur ofbeldi gegn konum og stúlkum aukist mikið. Það er einkum heimilisofbeldi sem hefur aukist hér á landi og annars staðar í heiminum. Efnahags- og félagslegar afleiðingar kóvíd-19 fela m.a. í sér félagslega einangrun hjá fólki og eykur áhyggjur þess af heilsu, öryggi og fjárhagslegri afkomu.
Þær aðstæður sem hafa skapast vegna kóvíd-19 eiga þátt í að auka kynjamisrétti sem kemur m.a. fram í minna fjárhagslegu sjálfstæði kvenna. Rannsóknir hafa leitt í ljós að konur axla nú mun meiri ábyrgð í sambandi við heimilisstörf og umönnun barna sem getur leitt til þess að þær þurfa að hætta að vinna eða minnka vinnuhlutfall sitt. Það leiðir til að valdaójafnvægi eykst í samböndum sem bitnar á konum, þær einangrast á heimilinu með gerandanum og hafa því oft ekki aðgang að þeim úrræðum sem eru í boði fyrir konur. Þetta eru kjöraðstæður fyrir drottnun og ofbeldi fyrir luktum dyrum.
Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt ríkisstjórnir heims til að gera aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi að lykilatriði í viðbragðsáætlunum þeirra gegn kóvíd-19. Þar er lögð áhersla á að stjórnvöld setji fjármögnun verkefna í forgang sem feli í sér nauðsynlega þjónustu við þolendur heimilisofbeldis. Þá er mikilvægt að þau komi fram með yfirlýsingu þess efnis að heimilisofbeldi verði ekki liðið og einnig aðgerðir til að breyta viðhorfi fólks. Það er einnig lögð áhersla á að stjórnvöld bregðist við kynbundu ofbeldi með því að tryggja þjónustu við þolendur, sæki gerendur til saka og standi að söfnun upplýsinga um kynbundið ofbeldi sem hægt er að nota til að bæta þjónustu og úrræði við þolendur.
António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur sagt að ofbeldi gegn konum sé hindrun í vegi jafnréttis, friðar og þróunar. Ofbeldi gegn konum er „heimsfaraldur“ að hans mati. „Þetta er siðferðileg árás á allar konur og stúlkur, smánarblettur á öllum samfélögum heims og umtalsverður þrándur í götu réttlátrar og sjálfbærrar þróunar í þágu allra. Í eðli sínu er ofbeldi gegn konum djúpstætt virðingarleysi og dæmi um að karlar viðurkenni ekki grundvallar jafnrétti og virðingu kvenna. Þetta er mál sem snýst um grundvallar mannréttindi,“ segir hann. Konur verða oftar fórnarlömb kynferðisofbeldis en karlar og því er sérstaklega farið fram á vernd fyrir konur og stúlkur og aðstoð við þær á átakasvæðum og jafnframt eftir að átökum lýkur í ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi.
Soroptimistar hér á landi hafa sent beiðni til utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, um að sendiráð Íslands erlendis verði hvött til að lýsa upp byggingar sínar meðan á átakinu stendur. Markmið okkar er að „roðagylla Ísland“, og hvetjum við fyrirtæki og stofnanir til þátttöku með því að lýsa upp byggingar sínar í appelsínugulum lit. Við hvetjum jafnframt landsmenn alla til að veita þessum málaflokki athygli.
Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á. Samtökin vinna að bættri stöðu kvenna, að mannréttindum öllum til handa sem og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi að leiðarljósi. Soroptimistar stuðla að menntun kvenna og stúlkna til forystu. Eitt helsta markmið Soroptimista er að liðsinna konum í baráttunni fyrir jafnrétti og frelsi frá félagslegum, efnahagslegum og menningarlegum takmörkunum með því að veita fræðslu og menntun. Soroptimistar móta, framkvæma og afla fjármagns til verkefna á hverju ári sem hafa að markmiði að bæta efnahagslega stöðu kvenna og fjölga tækifærum þeirra. Soroptimistar berjast gegn hvers konar ofbeldi í garð kvenna og stúlkna. Í næstum heila öld hafa Soroptimistar unnið sleitulaust að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum og tryggja aðkomu kvenna að friðarumleitunum. Í Alþjóðasamtökunum eru yfir 80.000 félagar í 127 löndum. Soroptimistar eiga ráðgefandi fulltrúa hjá hinum ýmsu stofnunum Sameinuðu þjóðanna og eiga einnig ráðgjafaraðild að Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC).
Soroptimistasamband Íslands er hluti af Evrópusambandi Soroptimista. Íslenskir soroptimistar eru um 600 talsins í nítján klúbbum víðs vegar um land.
Á lokadegi átaksins 10. desember er alþjóðlegur dagur Soroptimista og mun forseti soroptimista á Íslandi afhenda styrk til verkefnisins „Sigurhæða“ sem soroptimistar á Suðurlandi standa fyrir. Þetta verkefni felur í sér þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi. Undirbúningur þeirra stendur yfir og munu þær opna þjónustuna á nýju ári.
Soroptimistar vilja skora á íslensk stjórnvöld að senda frá sér skýr skilaboð um að samfélagið líði ekki kynbundið ofbeldi. Einnig að komið verði í veg fyrir og brugðist við kynbundnu ofbeldi samkvæmt tillögum SÞ. Það að tryggja réttindi og frelsi kvenna er mikilvægt skref í þá átt að samfélagið geti unnið úr þeim alvarlegu aðstæðum sem kóvíd-19 hefur skapað.
Guðrún Lára Magnúsdóttir
Höfundur er forseti Soroptimistasambands Íslands
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.