Retro Stefson, Úlfur Úlfur og Sverrir Bergmann á Drangey Music Festival
Tónlistarhátíðin Drangey Music Festival, þar sem vegurinn endar, verður haldin í annað sinn laugardagskvöldið 25. júní næstkomandi. Þetta árið verða það Retro Stefson, Sverrir Bergmann og hljómsveit og Úlfur Úlfur sem munu eiga sviðið, ásamt úrvali heimafólks og fleiri atriða sem kynnt verða síðar.
Óhætt er að segja að hátíðin hafi slegið í gegn þegar hún var haldin í fyrsta skipti síðastliðið sumar, frábær tónlist, einstök náttúra og veður eins og best verður á kosið hjálpaði allt til við að skapa ógleymanlega upplifun.
„Þetta gekk mjög vel í fyrra, svo ekki sé meira sagt, og er mikil áskorun að fylgja þessu eftir,“ viðurkennir Áskell Heiðar Ásgeirsson í samtali við Feyki, en hann stendur á bak við hátíðina ásamt Viggó Jónssyni og Guðbrandi Ægi Ásbjörnssyni. Hátíðin verður með sama sniði þetta árið, hvað varðar umgjörð, uppsetningu, skipulag og miðaverð. „Við ætlum að vera með tónlist fyrir alla aldurshópa, erum komin með nokkur frábær atriði og eigum eftir að koma með fleiri þegar nær dregur,“ bætir hann við.
Þegar Áskell Heiðar er spurður um væntingar til að endurskapa þá frábæru stemningu sem einkenndi hátíðina í fyrra segir hann að búið sé að panta gott veður á hátíðinni og alveg fram yfir Landsmót hestamanna.
„Veðrið er auðvitað stór þáttur á útitónleikum hvar sem er, á en á meðan það verður ekki rok og rigning þá verðum við í fínum málum. Við lofum ekki góðum veðri en við lofum hins vegar góðri tónlist í glæsilegri umgjörð, fallegu landslagi og ef við fáum eins frábæra áhorfendur og í fyrra þá getum við lofað góðri stemningu og góðum anda. Svo kemur í ljós hvort við vinnum aftur í veðurlottóinu!“ segir Áskell Heiðar að lokum.
Miðasala hefst mánudaginn 2. maí á midi.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.