Rekinn úr bréfaskólanum - fékk bréfið eftir 20 ár
Eiríki Metúsalemssyni á Sauðárkróki brá heldur betur í brún þegar honum barst sendibréf, með póststimpli frá 13. febrúar 1980. Var bréfið frá Bréfaskólanum, þar sem Eiríki var tilkynnt að hann hafi verið rekinn úr skólanum.
- Ég varð auðvitað hissa þegar ég sá gamalt og snjáð bréf á forstofugólfinu hjá mér í gær og þegar ég fór að skoða það betur sá ég að þetta var umslag frá Bréfaskólanum. Ég var í þeim ágæta skóla í ein tvö ár, var að læra þar norsku, en fékk að lokum leið á náminu og skrópaði því í skólanum, sagði Eiríkur við Dreifarann. - Bréfið var mjög harðort og mér tilkynnt að ég hafi eytt þarna tíma margra mætra manna til einskis, allt frá kennaranum sjálfum og til ritarans sem sleikti frímerkin á bréfin, sagði Eiríkur jafnframt og bætti við að skólastjórinn hefði þarna vísað sér formlega úr skólanum.
Bréfaskólinn var til hér á árum áður og var hann í eigu BSRB, Farmanna- og fiskimannasambandsins, Kvenfélagasambands Íslands, Menningar- og fræðslusambands alþýðu, SÍS og Stéttarsambands bænda.
En hvernig fór Eiríkur að því að skrópa í Bréfaskólanum? - Jú þegar ég hafði misst áhugann á þessu fór ég að leita leiða til að hætta náminu, en þar sem ég fékk ekki endurgreidd námsgjöldin, þá hætti ég í raun við að hætta, en sendi þessi í stað bara tóm umslög inn í skólann, sagði Eiríkur. - Því var greinilega misvel tekið og því var ég rekinn úr skólanum, sagði Eiríkur að lokum við Dreifarann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.