Raunir Sigríðar símsvörunarkonu hjá Heildsölu Sigurleifs
Sigríður Hermannsdóttir vinnur við símsvörun hjá Heildsölu Sigurleifs Garðarssonar og segist hún vera orðin leið á stanslausum hringingum forvitinna um einkahagi Leifa gamla. -Ég bara skil ekki hvernig fólk getur látið, hann Leifur er orðinn aldraður maður.
-Ég er búinn að vera í símsvörun í áratugi og alltaf hjá honum Sigurleifi. Hann er svo vandaður og indæll maður, algjör séntilmaður, hann Sigurleifur.
En hvað, þú ert ekki sátt við fólkið sem hringir til ykkar? -Nei, þetta er svo leiðinlegt að ég á bara ekki til orð. Afhverju hagar fólk sér svona? Þetta var ekki svona í gamla daga.
Geturðu nefnt mér einhver dæmi? -Ógjarnan vil ég það en fólk þarf að vita af þessu... svo það hætti þessu. Nú síðast í morgun hringdi kona og hún byrjar að spyrja: -Hver er þetta með Leifi?- Og ég segist ekkert vita það, enda kemur það engum við skilurðu? Og hún hváir og endurtekur spurninguna: -Hver er þetta með Leifi?- Ég verð svolítið pirruð og segi konunni að það komi henni bara ekkert við. Hún spyr mig hvort þetta sé ekki hjá Heildsölu Sigurleifs Garðarssonar og ég jánka því. Og þá spyr hún mig, hlustaðu nú, hún spyr mig: -Er hann Sigurleifur á lausu?- Hugsaðu þér ósvífnina. Ég skellti nú bara á.
En er nokkuð óvenjulegt við það að spyrja hvort Sigurleifur sé á lausu? -Jæja já, þú ert þá af sama sauðahúsinu góði.
Ég held að þú sért að misskilja eitthvað Sigríður, segðu mér, er Guðjón sölumaður þarna hjá þér? -Nei, hann er í leyfi.
Hvað ertu að segja??? -Já, hann er búinn að vera í leyfi í þrjár vikur.
Í þrjár vikur??? -Já, þau eru orðin svo löng þessi sumarleyfi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.