Ráðherra slær Hóla sem sjálfseignastofnun út af borðinu

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, hefur snúið við ákvörðun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttir, fyrrum menntamálaráðherra um að gera Háskólann á Hólum að sjálfseignastofnun.
Ekki hefur verið greint frá þessu opinberlega en Feykir.is hefur undir höndum tölvupóstsamskipti milli annars vegar ráðuneytisstjóra Menntamálaráðuneytis og hins vegar Guðrúnar Eyjólfsdóttur hjá Samtökum atvinnulífsins.

Guðrún sendi tölvupóst í ráðuneytið til þess að ákveða fundartíma á næsta fund nefndar sem vinna átti að undirbúningi þess að gera Hólaskóla að séreignastofnun. Var Guðrún þar að velta því fyrir sér að ef fundurinn væri þann 24. hvort myndi þá henta ráðuneytinu frekar að mæta til fundarins fyrir eða eftir hádegi. Í svarbréfi Halldórs stendur; -Sæl Guðrún.
Við höfum sett nýjan menntamálaráðherra inn í þetta mál. Ráðherrann er ekki tilbúinn til að fara áfram með vinnuna sem gerir ráð fyrir að Hólaskóli verði sjálfseignastofnun. Það mál geti hugsanlega komið til áframhaldandi úrvinnslu að loknum kosningum þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við. Ráðherra vill hins vegar að lokið verði faglegri úttekt á þeirri kennslu sem verið er að veita á Hólum. Við göngum því út frá því að Hólaskóli verði starfræktur næsta skólaár á ábyrgð ríkissjóðs og ráðuneytisins líkt og er nú.
Að loknum alþingiskosningum í apríl nk. og þegar ný ríkisstjórn hefur verið mynduð munum við kanna vilja þess sem verður í starfi menntamálaráðherra.
Þessi stefnubreyting ráðuneytisins verður tilkynnt hlutaðeigandi aðilum formlega á næstu dögum.

Í framhaldinu sendi Guðrún póst á nefndarmenn þar sem hún þakkaði samstarfið hingað til og sagðist jafnframt ekki sjá ástæðu til þess að boða menn til frekari fundarhalda.

Feykir.is hafið í morgun samband við stjórnarþingmanninn Jón Bjarnason en hann sagðist ekki hafa heyrt um málið.

Bjarni Jónsson, sveitarstjórnarmaður Vinstri grænna vildi ekki svara hvort hann kannaðist við málið.
-Ég tel að forsendur fyrir sjálfseignastofnun séu brosnar í því ástandi sem ríkir í þjóðfélaginu í dag. segir Bjarni  -Ég vona bara að mál Hólaskóla leysist farsællega og hann geti haldið áfram að stækka og dafna á landsvísu, bætir Bjarni við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir