Ráðherra kemur með 30 milljónir

Menntamálaráðherra mun í næstu viku undirrita samkomulag við sveitarfélögin Akrahrepp og Skagafjörð um 30 m.kr. viðbótarframlag og greiðslu þess en fyrrgreindri upphæð var lofað á haustmánuðum árið 2007 en hingað til hefur staðið á greiðslu.
Árið 2005 var gert samkomulag menntamálaráðuneytis, sveitarfélags Skagafjarðar og Akrahrepps vegna uppbyggingar og endurbóta á Miðgarði í Skagafirði sem menningarhúss. Gert var ráð fyrir að heildarkostnaður við framkvæmdirnar yrðu eigi hærri en 100 m.kr. og að framlag ríkissjóðs yrði hæst 60 m.kr. Hafist var handa við verkið á árinu 2006.

Nú liggur fyrir að kostnaður við endurbæturnar verður ekki undir 220 m.kr. Falast var eftir því við menntamálaráðuneytið að það yki við kostnaðarþátttöku sína í verkinu og á haustmánuðum árið 2007 lýsti ráðuneytið vilja til þess að auka framlag sitt um 30 m.kr., meðal annars vegna verðlagsbreytinga á byggingartíma, enda fengist til þess fjármagn af fjárveitingu til menningarhúsa. Dregist hefur að ákvarðanir um viðbótarframlag kæmust til framkvæmda. En sú töf tekur sem áður segir enda í næstu viku er ráðherra kemur og skrifar undir áðurnefndan samning.

-Það er ánægjulegt að þetta mál skuli nú loks vera í höfn. Strax og nýr menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir tók til starfa hafði ég forgöngu um það ásamt fleirum að fara yfir málefni Miðgarðs með ráðherranum. Katrín hefur sannarlega gengið rösklega til verks  og höggvið á  þann hartnær tveggja ára gamla hnút sem afgreiðsla á viðbótarframlagi frá ráðuneytinu hefur verið í. Eins og kunnugt er hefur gengið treglega hjá okkur í vinstri grænum undanfarin misseri að fá upplýsingar um gang mála varðandi framkvæmdir við menningarhúsið Miðgarð og við ekki átt fulltrúa í byggingarnefnd hússins. Því vil ég þakka sérstaklega þeim Agnari Gunnarssyni og Páli Dagbjartssyni fyrir þeirra þátt, ekki síst að setja okkur inn í málin, en það gerði okkur kleyft að fylgja málinu eftir við ráðherra, segir Bjarni Jónsson, odvviti VG í sveitarstjórn Skagafjarðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir