rabb-a-babb 47: Gunnar Bragi

Nafn: Gunnar Bragi Sveinsson.
Árgangur: 1968 (hélt lengi að ég væri af 68 kynslóðinni).
Fjölskylduhagir: Kvæntur Elvu Björk Guðmundsdóttur, Arnar Þór, Frímann Viktor, Sveinn Rúnar, Ingi Sigþór og Róbert Smári heita drengirnir.
Starf / nám: Pulsusali og pólitíkus.
Bifreið: Toyota Hilux 1992 , svo á Elva alveg magnaðan Citroen C5, sannkallað tækniundur.
Hestöfl: Alltof fá í Toyotunni.
Hvað er í deiglunni: Efna loforðin og skreppa í Langá.

Hvernig hefurðu það? 
Ég hef það alltaf gott, þoli ekki væl um annað.
Hvernig nemandi varstu? 
Ágætur held ég en félagslífið tók alltaf mikinn tíma.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? 
Permanentið, skil ekki hvernig mamma gat gert mér það. Enda hef ég verið með gel síðan.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
Framsóknarmaður og viti menn...
Hvað hræðistu mest? 
Pillur, held þetta sé allt plat.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? 
Örugglega eitthvað með Geira eða Queen.
Hvaða lag ertu líklegastur til að syngja í Kareókí? 
Hef bara sungið eitt ? Love Me Tender með Elvis og fékk mikið klapp frá grúppíunum. Reyndar voru þær flestar yfir sjötugt.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? 
Liverpool og Kastljósinu.
Besta bíómyndin? 
A fish called Wanda get alltaf helgið að henni. Einnig eru myndir Monty Pyton magnaðar.
Bruce Willis eða George Clooney / Angelina Jolie eða Gwyneth Paltrow?  
Ekki góð blanda, hefði kosið John Cleese og Robin Williams ásamt Jamie Lee Curtis og Reneé Zellweger.
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann? 
Eitthvað sætt...handa strákunum.
Hvað er í morgunmatinn? 
Herbalife eða ekkert. Hef yfirleitt ekki list á öðru fyrr en um hádegið.
Uppáhalds málsháttur? 
Oft lætur bensínafgreiðslumaður dæluna ganga. Björn Björnsson skellti þessu á mig eftir framboðsræðu.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín?
 Grettir , því hann er svo áhyggjulaus.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? 
Fá snilldarverk þar, reyni að vera heima á matartíma og þvælast ekki fyrir í eldhúsinu.
Hver er uppáhalds bókin þín?
 Álftagerðisbræður. Fyrsta og eina ritverk Björns vinar míns. Næst hlýtur hann að skrifa um Daltonbræður. Enda um svipað efni að ræða.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... 
...í sólina á Benidorm með fjölskylduna. Þar fáum við besta fríið.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? 
Stundvísin. Ég er mjög upptekinn af því að vera stundvís. Svo þegar það tekst ekki þá verð ég afar pirraður.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Óheilindi og óstundvísi þoli það ekki.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? 
Fékk bol með Liverpoolmynd þegar ég var lítill, auk þess sem Björn hélt með þeim. Annars held ég að þetta sé í blóðinu eins og flokkurinn.
Hvaða íþróttamanni / dómara hefurðu mestar mætur á?  
Eyjólfi sem íþróttamanni enda hefði hann orðið frábær í hvaða íþrótt sem er. Dómarinn er pabbi, DV sagði hann og Rafn Hjaltalín hlutdrægustu dómara landsins!
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó? 
Diskó Friskó. Við Barlómar (það er körfuknattleikslið brottfluttra Skagfirðinga í Reykjavík) sungum með Helgu Möller á Hótel Íslandi. Hún bað reyndar ekki um þann félagsskap.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati? 
Engin ein persóna, en Bill Shankly var magnaður.
Ef þú ættir að dvelja aleinn á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér?  
Veiðistöng, Liverpool treyjuna og rúmið mitt. Ég á alveg ótrúlega gott rúm. 

Hvað er best í heimi?

Fjölskyldan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir