Rabb-a-babb 216: Árni á Hard Wok
Árni Björn Björnsson veitingamaður á Hard Wok Café svarar Rabb-a-babbi númer 216. Árni er af 68 kynslóðinni, það er að segja þessari sem fæddist 1968. „Made in New York, fæddur í Kópavogi, uppalinn í Grindavík,“ segir hann léttur en foreldrar Árna eru Björn Haraldsson og Guðný J. Hallgrímsdóttir.
Árni er giftur Ragnheiði Ástu Jóhannsdóttur frá Mýrarkoti á Höfðaströnd. þau eiga fimm börn og tvö barnabörn og búa í Aðalgötunni á Króknum. Árni kláraði Hótel- og veitingaskólann 1992 og hefur starfað í veitingageiranum allar götur síðan. Segist reyndar hafa átt að útskrifast 1989 en opnaði bar í Grindavík í miðju námi sem frestaði sveinsprófinu örlítið...
Hvað er í deiglunni? Gera Wok reddý fyrir næsta eiganda og bralla svo eitthvað sniðugt úti á Mel í Sæmundahlíðinni.
Hvernig nemandi varstu? Ég slapp! Lesblindur en hafði vit á því að teika þá námssterku og var þokkalegur í að láta lítið fara fyrir mér.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ég fékk bara 5.000 kr. í pening, rúmið sem ég fékk frá mömmu og pabba er gestarúm hjá okkur í dag og gjöfin frá Ingu frænku var Swiss army hnífur.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Michael Jackson... sem betur fer gekk það ekki eftir! Ég man líka eftir því að ég fékk einhverja flugu í hausinn um að verða garðyrkjufræðingur. Mamma drap þá hugmynd með því að gefa mér tengdamömmu [blómið] sem ég drap á einum mánuði, sem á víst ekki að vera hægt. Þessi fluga virðist samt eitthvað vera að skjóta upp kollinum aftur.
Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Fisher Price dótið, ennþá til hjá mömmu. Svo var það WalkMan græjan maður!
Besti ilmurinn? Sá sem ég fékk í jólagjöf síðast.
Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Í Gullengi 2004.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Bohemian Rhapsody.
Hvernig slakarðu á? Með sjónvarpsglápi.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ekki neinu, það væri víst tilbreyting segir faðir minn ef ég mundi fylgjast með einhverjum fréttum.
Besta bíómyndin? Ég er fíkill, sjáðu til, svo þær eru margar. Sú sem poppaði fyrst upp var Shawshank en Temple Grandin nær svo vel að setja mann inn í hugarheim þeirra einhverfu. Alveg geggjuð.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Muhammad Ali.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Það nær mér enginn í sjónvarpsglápinu og svo að elda eftir að Arnar minn flutti út – átti ekki roð í hann.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Hér verð ég að segja pass! Ég elda eftir litum og aldrei eftir uppskrift.
Hættulegasta helgarnammið? Hlaup.
Hvernig er eggið best? Linsoðið.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Meðvirknin!
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Falsheit.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Sá vægir sem vitið hefur meira! Bara að ég gæti alltaf farið eftir þessu – ætli ég sé þá ekki bara sá vitlausi?
Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég og Siggi vinur minn í bobba. Þrír stórir strákar ætluðu að fara tuska okkur til en ég bað þá barasta að passa sig því Siggi væri orðinn sex ára.
Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Fyrst það er orðað þannig að þurfa að dúsa þar þá vel ég að vera Putin og ég mundi enda dagin með fullhlaðinni byssu og skella mér í rússnenska rúllettu.
Hver er uppáhalds bókin þín? Ég hef klárað að lesa einhverjar átta bækur eftir Sísí í sex ára bekknum. Fjórar eftir Stefán Mána, Bettý eftir Arnald og Hnífur Abrahams. Allar las ég hér í Skagafirði. En AA-bókin er sú sem hefur haft mest áhrif á mig.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Shema Colega! Pólska og þýðir: Sæll félagi!
Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Ég mundi bjóða Róberti bakara, Jóni Dan og Eiði Bald á Akureyri, trygging á harðsperrum út af hlátri í nokkra daga á eftir. P.S. Ég keyri strákar!
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Uss! 2. febrúar 2004, Gullengið til að sjá hana aftur í fyrsta sinn.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Árni Skagfirðingur ... nei, er það ekki of mikið?
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Japans.
Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Að vera skuldlaus við Kaupfélagið mitt, búa til orku og ferðast með ástinni minni. P.S. Þessari úr Gullenginu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.