Rabarbarahátíð á Blönduósi þann 29. júní
Á Blönduósi í gamla bænum verður Rabarbarahátíð eða Rhubarb Festival haldin hátíðleg laugardaginn 29. júní frá kl. 12-17. Megin ástæða fyrir þessari skemmtilegu nýung er að heiðra minningu forfeðra okkar og formæðra sem nýttu rabarbarann eða tröllasúruna, eins og sumir kalla hann, mikið betur og þótti hin mesta búbót hér áður fyrr. Í dag vex rabarbarinn mjög víða í gamla bænum en er, því miður, lítið sem ekkert nýttur. Það er því tilvalið að vekja aftur upp áhugann á því að nýta hið fjölæra grænmeti sem rabarbarinn er og fræða fólk um sögu hans bæði hérlendis sem og erlendis.
Á Facebook-síðu hátíðarinnar segir að eitthvað verði fyrir alla í dagskrá dagsins, allt frá gömlum útileikjum, sem er yngstu kynslóðunum framandi, upp í vinnusmiðjur um jurtalitun með rabarbara. Ýmislegt ljúffengt úr rabarbara verður kynnt, þá verður uppskriftakeppni, söguganga, sultugerð, draugaganga, fróðleikur um sögu og nýtingu rabarabarans, listasmiðja, listasýning og margt fleira. Sjón er sögu ríkari og því um að gera að taka daginn frá og mæta á gleðina. Hægt er að fylgist nánar með á síðunni þeirra.
Þau sem hafa áhuga á að taka þátt í dagskrá með einum eða öðrum hætti geta haft samband í gegnum Facebook eða í síma 847 5493 (Elfa), 8653689 (Heiða), 899 1189 (Jón Freyr) og í netföngin heidass@simnet.is og jonfreyr@jonfreyr.com
Hér kemur svo smá fróðleikur um rabarbara sem er tekinn af Wikipediu.
Stöngull rabarbarans er rauðleitur, stökkur og getur orðið jafn breiður og barnshandleggur. Blaðið upp af stilknum er mikið og breitt og grófgert og er stundum nefnt rabarbarablaðka. Til eru ýmiss afbrigði af rabarbara; algengust eru Linnæus og Victoria. Stilkur rabarbarans er mikið notaður í sultugerð, rabarbarasúpu og stundum einnig í saft- og víngerð. Neðsti hluti stilksins er hvítur og er oft soðinn niður. Sá hluti rabarbarans nefnist rabarbarapera vegna þess að hann líkist mjög flysjaðri peru, þ.e.a.s. sé búið að skera hann frá leggnum. Stilkur rabarbarans inniheldur talsvert magn af oxalsýru sem gerir hann súrann. Oxalsýran í rabarbara er í það miklum styrk að hún getur haft áhrif á nýrnastarfsemi þ.e. ef borðað er óæskilega mikið af honum. Einnig getur mikil neysla rabarbara eytt glerungi tanna. Þannig að allt er gott í hófi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.