Pavel ráðinn þjálfari Tindastóls
Körfuknattleiksdeild Tindastóls gekk í dag frá samningi við Pavel Ermolinskij um að hann taki nú þegar við sem þjálfari meistaraflokks karla. Pavel er einn sigursælasti leikmaður sem íslenskur körfuknattleikur hefur nokkurn tíma átt. Hann byrjaði enda snemma og lék fyrsta leik sinn í úrvalsdeild KKÍ með ÍA árið 1998, þá aðeins ellefu ára gamall. Það er væntanlega met sem seint eða aldrei verður slegið!
Í tilkynningu frá deildinni kemur fram að Pavel sé fæddur í sovétríkjunum, árið 1987. Hann fluttist til Íslands fimm ára gamall þegar faðir hans réði sig sem þjálfari körfuknattleiksliðs Skallagríms í Borgarnesi. Karfan er honum þannig í blóð borin og ferill hans sem leikmaður bæði hérlendis og erlendis ber þess glöggt vitni. Pavel á 74 landsleiki að baki fyrir Íslands hönd og á síðasta ári náði hann þeim áfanga að komast í hóp þeirra tíu Íslendinga sem leikið hafa yfir 100 leiki í úrslitakeppni karla í körfubolta.
Tindastóll er því að fá til sín gríðarlegan reynslubolta á körfuboltavellinum. Hann var á síðasta keppnistímabili spilandi aðstoðarþjálfari Vals og þar áður meðal annars sexfaldur Íslandsmeistari með KR. Pavel hefur um langt árabil sýnt þannig leiðtogahæfileika innan vallar sem utan að full ástæða er til að binda miklar vonir við komu hans hingað til Sauðárkróks. Og Pavel er ekki að tjalda til einnar nætur því hann mun á næstu dögum flytjast hingað búferlum ásamt eiginkonu sinni, Rögnu Margréti Brynjarsdóttur, og tveggja ára gömlum syni þeirra, Emil Ermolinskij.
„Pavel er annálaður körfuboltaheili fyrir utan alla hæfileika hans inni á vellinum. Hann er án efa einn allra sigursælasti körfuknattleiksmaður sem Ísland hefur átt og er að okkar viti mikill happafengur fyrir Tindastól á þessum tímapunkti. Ég er sannfærður um að hann eigi eftir að koma með öfluga nýja og ferska vinda inn í liðið okkar á næstu mánuðum,“ segir Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls.
Pavel Ermolinskij segir þetta gríðarlega skemmtilegt og áskorandi tækifæri. „Ég kynntist íslenska körfuboltanum fyrst í Borgarnesi og hef alla tíð síðan dáðst að þessari stemningu sem sum bæjarfélög úti á landi hafa náð að skapa í kringum körfuna. Tindastóll hefur í gegnum árin alltaf verið einn af stóru andstæðingunum og það hefur alltaf verið gaman að koma hingað á Krókinn og takast ekki bara á við frábæra leikmenn heldur stemninguna í stúkunni á hverjum einasta leik. Ég hef alltaf dáðst að þessu liði og það verður ótrúlega skemmtilegt að hafa stúkuna hér á Sauðarkróki loksins með sér en ekki á móti. Tindastóll á ennþá eftir að landa „þeim stóra“, sjálfum Íslandsmeistaratitlinum, og það er mikill heiður fyrir mig að fá að blandast núna í þann stóra hóp sem vonandi mun gera þann draum að veruleika sem allra fyrst.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.