Pavel orðinn löglegur á parketið með liði Tindastóls

Pavel og Pétur ræða landsins gagn og nauðsynjar ... körfubolta. MYND: DAVÍÐ MÁR
Pavel og Pétur ræða landsins gagn og nauðsynjar ... körfubolta. MYND: DAVÍÐ MÁR

Karfan.is segir frá því að Tindastóll hefur fengið félagaskipti fyrir Pavel Ermolinski yfir til liðsins frá Val en Pavel, sem tók við þjálfun Subway-deildar liðs Tindastóls nú í janúar, varð einmitt meistari með Valsmönnum síðasta vor.

Ekkert hafði verið gefið út um það að Pavel myndi leika með liði Tindastóls auk þess að þjálfa. „Til þess að þjálfa þarf ekki eiginleg félagaskipti en frá og með deginum í dag má hann einnig spila með liðinu sem leikmaður,“ segir í frétt Körfunnar.

Það er að sjálfsögðu gleðiefni að eiga tromp á borð við Pavel upp í erminni – eða á bekknum – þegar Stólarnir þurfa að leita í reynslubankann og verður spennandi að sjá kappann í Tindastólsgallaum. Kannski er nú gamall draumur þjálfarans að rætast? Pavel lagði reyndar skóna á hilluna síðasta sumar og hefur ekki verið að æfa og því kannski ekki líklegt að hann ætli sér stórt hlutverk í liði Stólanna. En hver veit hvað framtíðin ber í skauti.

Leikmannaglugginn að lokast

Leikmannaglugginn lokar á miðnætti og hefur lið Tindastóls, eins og áður hefur verið greint frá, slitið samvistir við heiðursdrenginn Zoran Vrkic en hann hefur nú gengið til liðs við Grindvíkinga. Ekki hefur Feykir upplýsingar um að Dagur Þór og félagar hjá körfuknattnleiksdeild Tindastóls muni rífa upp veskið í kvöld og bæta erlendum leikmanni við hópinn. Ljóst er að fín breidd er í liði Tindastóls og að vera með þrjá erlenda leikmenn í stað fjögurra kemur í veg fyrir mistök við talningar – sem er auðvitað viss léttir fyrir stuðningsmenn og þjálfarateymið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir