Pat segir þróunina í leik Stólastúlkna vera jákvæða
Veturinn hefur verið erfiður hjá liði Tindastóls í 1. deild kvenna í körfunni og aðeins tveir sigurleikir í 16 leikjum. Feykir sendi Pat Ryan, þjálfara liðsins, nokkrar spurningar „Við erum lið með fullt af ungum leikmönnum sem þurfa tíma til að þroskast. Stelpurnar vinna hörðum höndum á hverjum degi,“ sagði Pat þegar Feykir byrjaði á að spyrja um hvað væri það helsta sem upp á vantar hjá liðinu.
Í desember var ákveðið að skipta um bandarískan leikmann liðsins en þá var Chloe Wanink send heim en í hennar stað kom Jayla Johnson. Chloe var góð skytta og líkt og Jayla fór hún fyrir liðinu í stigaskori. Jayla skorar hins vegar flest öll stig sín innan teigs og í námunda við körfu andstæðinganna. Tindastólsliðinu hefur ekki tekist að sigra í þeim þremur leikjum sem spilaðir hafa verið eftir þessa uppstokkun en liðið verið þó gefið andstæðingunum harðari keppni.
Telurðu að liðið sé að spila betur nú eftir að Jayla kom í stað Chloe? „Liðið hefur verið mjög samkeppnishæft síðustu þrjá leiki síðan Jayla kom.“
Í síðustu leikjum hefur lið Tindastóls m.a. spilað við sterk lið Stjörnunnar og KR og verið vel inni í leikjunum. Lítil ógnun fyrir utan 3ja stiga línuna gerir liðinu erfitt fyrir. Hvað er til ráða? „Við höfum átt möguleika á að vinna þessa leiki svo þróunin í leik okkar hefur verið jákvæð. Þriggja stiga nýtingin er eitthvað sem við verðum að bæta.“
Hvernig fer svona mótlæti með liðsandann og þjálfarann. Ertu ánægður með framlag stúlknanna? „Stelpurnar hafa jákvætt hugarfar og anda og leggja hart að sér á hverjum degi og það gerir það gefandi að vera þjálfari,“ segir Pat að lokum.
Næsti leikur Stólastúlkna er gegn liði Þórs á Akureyri næstkomandi miðvikudag, 8. febrúar. Lið Þórs er í toppbaráttunni og má ekki við því að misstíga sig. Þetta verður þriðja viðureign liðanna í vetur en spilaðar eru þrjár umferðir í 1. deild kvenna. Akureyringar hafa unnið báða leiki liðanna hingað til af öryggi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.