Öruggur sigur Stólastúlkna á liði ÍR
Stólastúlkur tóku hús á ÍR-ingum í kvöld í 20. umferð 1. deildar kvenna í körfunni. Lið ÍR situr á botni deildarinnar og þær áttu í raun aldrei séns gegn liði Tindastóls þó munurinn hafi ekki verið mikill alveg fram í fjórða leikhluta. Gestirnir náðu góðu forskoti í byrjun og héldu því og unnu að lokum góðan sigur, lokatölur 45-69.
Lið Tindastóls gerði fyrstu tíu stigin í leiknum og leiddi að loknum fyrsta leikhluta, 4-15, en í öðrum leikhluta bætt lið Tindastóls aðeins einu stigi við forskotið og leiddu því í hálfleik með tólf stigum. Staðan 22-34. Það munaði lengstum um tíu stigum á iiðunum í þriðja leikhluta og að honum loknum hafði lið ÍR aðeins saxað á forystu Tindastóls, staðan 38-48. Gestirnir tóku síðan öll völd í lokafjórðungnum og unnu hann 7-21.
Emese Vida var atkvæðamest í liði Tindastóls með 18 stig, 17 fráköst og fimm stoðsendingar. Ifunanya Okoro gerði 13 stig og tók ellefu fráköst, Klara Sólveg var með níu stig og Emma Katrín og Inga Sigurðar voru með átta stig hvor.
Öll fjögur efstu liðinu unnu leiki sína í kvöld og þar á meðal KR sem vann lið Ármanns í miklum spennuleik en það þýðir að lið Ármanns verður í fimmta sæti og lið Tindastóls því klárlega i 2.-4. sæti. Lið Aþenu, Hamars/Þórs og KR eru öll með 30 stig fyrir lokaumferðina og Tindastóll 28. Í lokaumferðinni mætir Tindastóll liði Keflavíkur b í Síkinu, gott lið Ármanns mætir Hamri/Þór og síðan mætast Aþena og KR. Það gætu því orðið sviptingar og sætaskipti í lokaumferðinni en þá ræðst hvaða lið mætast í úrslitakeppninni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.