Öruggur sigur hjá Tindastól/Neista
Stelpurnar í meistaraflokk Tindastól/Neista gerðu sér lítið fyrir í gær og lögðu lið Álftanes 4 – 0. Með sigrinum tylltu stelpurnar sér í fjórða sæti fyrstu deildar.
Lýsing leiksins er tekin af heimasíðu Tindastóls; „Norðanstelpur mættu ákveðnar til leiksins og kannski heldur sókndjarfar þar sem þær voru ansi oft réttilega dæmdar rangstæðar en þær áttu marga góða spretti upp völlinn og sköpuðu sér fín færi sem betur mátti nýta. Þegar um tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum skall hurð nærri hælum þegar Snæbjört átti lúmskt skot að marki sem virtist hættulítið en fór framhjá markmanni Álftaness og rúllaði rétt framhjá markinu. Stundarfjórðungi síðar kom fyrsta mark Tindastóls/Neista þegar Halla Mjöll renndi boltanum snyrtilega framhjá markmanni andstæðinganna eftir góða sókn og fyrirgjöf frá hægri.
Þrátt fyrir mörg marktækifæri í fyrri hálfleik tókst Tindast./Neista ekki að skora fleiri mörk og staðan því 1-0 í leikhlé.
Í síðari hálfleik komu heimastúlkur enn ákveðnari til leiks og sóttu stíft og sást greinilega að þær ætluðu sér að nýta færin og skora grimmt og fljótlega uppskáru þær mark eftir góða sókn þegar Þóra Björk setti boltann í netið og staðan orðin 2-0. Um mínútu síðar bættu heimastúlkur þriðja markinu við þegar Brynhildur skoraði laglega en hún átti marga spretti í dag og óheppin að skora ekki fleiri mörk.
Álftanesstúlkur áttu fá svör við spilamennsku heimastúlkna en komust þó í færi á 70. mínútu þegar þær áttu gott skot að marki eftir mikið strögl við vítateiginn en Kristín Halla varði glæsilega í stöng og var boltanum síðan komið í burtu. Skömmu síðar varði Kristín vel þegar þrumuskot kom að marki utan við vítateig.
Norðanstúlkur voru ekki alveg saddar og tók Brynhildur sig til og hljóp varnarmenn Álftaness af sér, geistist upp völlinn og átti gott skot að marki en boltinn flaug rétt framhjá en segja má að þar hafi heppnin verið með gestunum. Eftir hálftíma seinnihálfleik fékk Þóra sendingu upp í hægra hornið og háði mikið kapphlaup við markmann gestanna sem stormaði langt út úr marki sínu en varð aðeins seinni en Þóra sem náði að gefa boltann fyrir. Boltinn hafnaði í hendi varnarmanns innan vítateigs og réttilega dæmt víti sem Rabbí skoraði úr og staðan 4-0 sem hélst til loka leiksins.
Glæsilegur leikur hjá stelpunum sem sýndu mikla baráttu og sigurvilja allt til enda. Það má segja þeim til hróss að þær sköpuðu sér mörg marktækifæri en oft vantaði að binda endahnútinn á sóknirnar þó fjögur mörk litu dagsins ljós. Munurinn hefði hæglega getað orðið meiri ef færin hefðu verið betur nýtt og alltof oft voru stelpurnar rangstæðar en mikil hætta hefði skapast ef það hefði ekki verið því þær voru miklu fljótari og gátu stungið varnarmennina af sér. Kristín Halla átti stórleik í markinu, varði vel, átti góð úthlaup og stjórnaði vörninni af festu.
Með sigrinum í kvöld eru stelpurnar komnar upp í 4. sæti riðilsins með 6 stig, jafnmörg og Völsungur en með betra markahlutfall. Næsti leikur er útileikur við Keflavík á föstudaginn og þá heimaleikur gegn Völsungi þriðjudaginn 13.júlí.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.