Opnun málverkasýningar Tolla og Sossu

Málverkasýning Tolla og Sossu undir yfirskriftinni „Stefnumót á Krók“ var opnuð með viðhöfn sl. sunnudag. Fjöldi fólks lagði leið sína í Safnahúsið á Sauðárkróki til að bera augum málverk einna farsælustu listamanna landsins.

Stefán Vagn Stefánsson sveitarstjórnarmaður, og fyrrum nemandi Sossu við grunnskólann á Sauðárkróki, átti heiðurinn af því að opna sýninguna formlega.

Tolli og Sossa sögðust vera ánægð með útkomuna í samtali við Feyki og að myndir þeirra tóni vel saman þótt þær séu ólíkar.

Sossa málar gjarnan litríkar myndir af fólki við ýmsar athafnir og nú í seinni tíð ber meira á landslagsmyndum. „Ég málaði oft fígúrur í landslagi og það má segja að bakgrunnurinn hafi meira og meira orðið að forgrunni þegar fram liðu stundir,“ sagði hún í samtali við Feyki á dögunum.

Ég er samt mikið að mála konurnar og vini mína – sennilega eru þessar konur allar sjálfsmyndir,“ sagði hún og bætti við að það sé alveg í lagi að hlægja að myndum hennar, því hún vilji gjarnan hafa húmor í þeim. „Það er alveg nóg af alvarleika í heiminum.“

Tolli er best þekktur fyrir litríkar landslagsmyndir. Málverkin segir hann byrja sem abstrakt myndir með stórgerðum flötum. Hann útskýrði að oft á tíðum sé hann ekki búin að ákveða hvernig myndin eigi að vera í upphafi, heldur fæðist hugmyndin oft á striganum.

Eftir að fyrsta umferðin hefur fengið að þorna þá byggi ég upp smáatriðin. Þá skapast ákveðin spenna í myndinni út frá andstæðunum,“ sagði hann og benti á fjölda af fínlegum stráum sem standa upp úr tjörn í einu af málverkum hans.

Bæði hafa þau verið starfandi listamenn til margra ára og verið iðin við að setja upp sýningar, innanlands jafnt sem utan. Það vafðist því ekki fyrir þeim að skella saman þessari glæsilegu sýningu sem gestir Sæluvikunnar geta notið góðs af.

Sýningin í Safnahús Skagfirðinga á Sauðárkróki verður opin til 13. maí, frá kl. 13-17.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir