Öllu er afmörkuð stund :: Leiðari Feykis
Það er fjör í pólitíkinni þessa dagana, ný forysta tekin við í Samfylkingunni, eftir vel heppnaðan landsfund um helgina, og það stefnir í harðan formannsslag hjá Sjálfstæðisfólki um næstu helgi en þá fer fram landsfundur flokksins.
Það var í sjálfu sér lítil spenna í formannskosningum Samfylkingarinnar þar sem enginn bauð sig fram á móti Kristrúnu Frostadóttur, kannski meiri spenna hverjar væntingar formannsins væru til framtíðar. Í ræðu sinni sagðist Kristrún ætla að fara aftur í kjarnann og leggja ofuráherslu á kjarnamál jafnaðarmanna, eins og fram kemur á heimasíðu flokksins. „Allt hefur sinn tíma. Öllu er afmörkuð stund. Og nú gengur í hönd tími breytinga í Samfylkingunni. Því að Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands er nú flokkur með nýja forystu. Og breytingarnar, þær byrja strax í dag. Þær hefjast hér og nú,“ sagði hinn nýkjörni formaður.
Þingflokksformaður flokksins, Helga Vala Helgadóttir, er sú eina sem eftir er í forystusveit flokksins úr fyrri stjórn og hún er þekkt fyrir að vera afdráttarlaus í sínum skoðunum. Haft er eftir henni á Vísi.is að gefa þurfi Sjálfstæðisflokknum frí og útilokar ríkisstjórnarsamstarf við hann á komandi árum.
Bjarni Benediktsson hefur staðið við stýrið hjá Sjálfstæðisflokknum frá árinu 2009, tók við á erfiðum tímum eftir hrunið svo kallaða og hefur staðið í ströngu, sérstaklega við að halda flokknum í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við kjötkatlana alræmdu frá árinu 2013 þegar ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þá formanns Framsóknar, tók við af ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur leiðtoga Samfylkingarinnar.
Nú finnst Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem stund Bjarna sem formanns sé liðin og hefur skorað félaga sinn á hólm í formannsslag fyrir Sjálfstæðisflokkinn svo landsfundarfulltrúar, sem telja nokkur hundruð, fá bæði völina og kvölina við að velja á milli þeirra um næstu helgi.
Þau Kristrún og Guðlaugur Þór hafa bæði uppi háleit markmið um endurheimt fyrra fylgi sinna flokka en sem dæmi fékk Sjálfstæðisflokkur tæp 34 prósenta fylgi árið 2003 og 22 þingmenn og Samfylking tæp 31 prósent og 20 þingmenn samanborið við 9,93% og sex þingmenn í síðustu kosningum en þá fékk Sjálfstæðisflokkur 24,39% fylgi og 16 þingmenn.
Líklegt má telja að þessi fortíðarþrá sé ofar skýjum því þegar kosið var 2003 voru sex flokkar sem buðu fram á landsvísu en hafði fjölgað í ellefu í kosningunum 2021.
Hvort Guðlaugi tekst ætlunarverk sitt, og tími Bjarna að renna sitt skeið, er erfitt að sjá fyrir á þessari stundu en eins og predikarinn segir í Biblíunni, og margir hafa haft eftir er öllu afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma, Ein kynslóðin fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu.
Góðar stundir
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.