Öll störf skipta máli

Ásbjörn Óttarsson leiðir lista Sjálfstæðismanna

Atvinna og uppbygging atvinnutækifæra eru ásamt grunnþjónustu mikilvægustu hornsteinar byggða og samfélaga.  Fjölbreytileiki atvinnulífs skapar meiri möguleika fyrir samfélög til uppbyggingar.  Heimilin fá súrefni frá atvinnulífinu og krafa fólks í dag eru bætt lífskjör. Sem betur fer hefur okkur Íslendingum tekist að byggja upp samfélag sem er með því besta sem þekkist í heiminum hvernig sem á það er litið. Undirstöður atvinnulífsins eru sterkar, þó tímabundið blási á móti eru framleiðslutækin, þekkingin og krafturinn enn til staðar. Krafturinn sem við sjálfstæðismenn ætlum að virkja, fólkinu og heimilum til framdráttar.

 

 

 

Uppbygging á Grundartanga var mikið lán

Uppbygging stóriðju á Grundartangasvæðinu var mikið lán fyrir syðsta hluta Norðvesturkjördæmis. Saga þessarar þróunar spannar nálægt 30 ár og sér ekki fyrir endann á henni ef rétt er á málum haldið.  Mikil umræða er um ný tækifæri á svæðinu t.d. gagnaver, sólarkísilverksmiðju, uppbyggingu hafnarsvæðisins og með stöðugri þróun hefur aukning framleiðsluverðmæta þeirrar vöru sem framleidd er á svæðinu vaxið mikið. Menn hafa orðið vitni að öflugri þróun byggða, atvinnulífs, þjónustu og umfram allt getu alls svæðisins til framfara á öllum sviðum. Margföldunaráhrif stóriðjustarfseminnar  á svæðinu dylst engum sem vitni hafa orðið að. Stóriðjan hefur styrkt litlu fyrirtækin á svæðinu, eflt þau og í sumum tilfellum „hjálpað“ þeim að verða stór. Um er að ræða fyrirtæki í öllum greinum, þjónustu, þekkingarfyrirtæki, málmiðnaðarfyrirtæki, rafiðnaðarfyrirtæki og svo mætti áfram telja.  Öll tölfræði fyrir svæðið tekur jákvæðum breytingum hvað varðar íbúaþróun, fjölgun starfa, hækkun tekna og aðra þá þætti sem máli skipta við hvern áfanga sem tekinn hefur verið í notkun á Grundartangasvæðinu á síðustu 30 árum.  Starfsemin á Grundartanga hefur glætt nærsamfélagið lífi svo um munar. Það er ekki tilviljun að þau svæði landsins sem hafa haft á brattan að sækja horfa mjög til stóriðju sem lausn til að örva sín svæði. Skyldi það vera vegna þess árangurs sem þau sjá á Grundartangasvæðinu?

Verðmætasköpun fyrirtækjanna á Grundartanga er gríðarleg, bein og óbein störf eru þúsundir. Verðmætasköpunin telur í milljörðum króna á ári og þetta eru mikilvægar grunnstoðir sem Sjálfstæðisflokkurinn vill byggja á, verðmætasköpun, þekking og mannauður eru óaðskiljanlegir þættir þess að tryggja lífskjör og lífsgæði til frambúðar.

Sjálfstæðisflokkurinn vill skapa ný atvinnutækifæri

 Sjálfstæðisflokkurinn vill byggja á atvinnutækifærum sem nýta allar auðlindir á sjálfbæran hátt í sátt við umhverfið og skapa með þeim hætti verðmæti og útflutningstekjur sem bæta lífskjör íbúa svæðisins og skapa þeim fleiri og fjölbreyttari tækifæri. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina verið í forystuhlutverki í uppbyggingu á þekkingarstarfsemi af öllu tagi og sækist eftir því að leiða þá uppbyggingu áfram, þjóðinni til farsældar.

 

Ásbjörn Óttarsson

Höfundur situr í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir