Nýr umsjónaraðili Málmeyjar í Skagafirði valinn

Málmey. MYND SVEITARFÉLAGIÐ SKAGAFRJÖRÐUR
Málmey. MYND SVEITARFÉLAGIÐ SKAGAFRJÖRÐUR

Skagafjörður auglýsti eftir nýjum umsjónarmanni með Málmey á Skagafirði á haustdögum. Málmey er stærsta eyjan á Skagafirði, um 160 ha að stærð. Á fund byggðarráðs komu fulltrúar úr hópi þriggja umsækjenda umsjónarmannastöðu um  Málmey á Skagafirði, sem byggðarráð boðaði til að veita nánari upplýsingar um umsóknir hlutaðeigandi.  

Byggðarráð hefur nú samþykkt að velja Björgunarsveitina Gretti á Hofsósi úr hópi umsækjenda sem umsjónaraðila með Málmey á Skagafirði, til 5 ára, og felur sveitarstjóra að útbúa samning þess efnis á milli aðila sem lagður verði fyrir byggðarráð til samþykktar. 

Eins og fram kom þegar auglýst var eftir umsjónarmanni er það á hans ábyrgð að fylgjast með eyjunni og standa vörð um fuglalíf Málmeyjar og öðru náttúrufari eyjarinnar. Veiðar í eyjunni skulu aðeins heimilar í samræmi við gildandi lög og reglugerðir hverju sinni og eingöngu leyfðar undir ströngu eftirliti umsjónarmanns þar sem tekið verður tillit til náttúrusjónarmiða umfram annað. Umsjónarmaður skal leitast við að gefa ferðafólki kost á að komast til eyjarinnar og njóta þar friðsældar og fylgjast með fuglalífi og öðru náttúrufari. Umsjónarmaður skal hafa eftirlit með öllum ferðum í Málmey. Umsjónarmaður skal hafa eftirlit með að umgengni um minjar eyjarinnar sé góð og að þeim stafi ekki hætta af átroðningi af manna völdum.



Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir