Nýr dragnótabátur í Skagafjarðarhöfn
Miðvikudagskvöldið 8. nóvember sigldi inn í Skagafjarðarhöfn dragnótabáturinn Hafdís SK 4, sem FISK Seafood hefur tekið á leigu í eitt ár. „Báturinn er lítill og nettur 18 metra langur stálbátur, áður Hafborg EA 242, og er hann hagkvæmur í rekstri og eyðir lítilli olíu. FISK Seafood hefur undanfarin misseri verið að bæta við sig varanlegum aflaheimildum í skarkola, steinbít, þykkvalúru og langlúru. Með tilkomu nýs Fiskmarkaðs, sem opnaði á Króknum í apríl sl., hafa aukist möguleikar til löndunar á öðrum fisktegundum sem á að gera tilraun með að veiða í Skagafirðinum.“ segir Jón Kristinn Guðmundsson hjá FISK Seafood.
Þriggja manna áhöfn af netabátnum Lundey SK 3 mun flytja sig yfir á nýja bátinn en þeir hafa síðastliðin tvö ár verið að kortleggja fjörðinn með þessar fisktegundir í huga. „Þessi áhöfn er með mikla reynslu af dragnótaveiðum og til gamans má geta þess að skipstjórinn er frægur kolaveiðimaður af Snæfellsnesinu,“ tók Jón Kristinn einnig fram.
Áætlaður fyrsti túr er á næstu dögum en Ási skipstjóri er það hjátrúafullur að ef tekst ekki að fara um helgina frestast það fram á fimmtudaginn í næstu viku. "Maður fer aldrei á sjó á nýjum bát á mánudegi, þriðjudegi eða miðvikudegi", sagði Ási léttur í lund.
LJÓSMYND: ÞORGRÍMUR ÓMAR TAVSEN.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.