Ný smábátahöfn formlega tekin í notkun á Króknum
Fyrri hluta júnímánaðar lauk uppsetningu á nýjum flotbryggjum fyrir minni báta í Sauðárkrókshöfn og í gær var nýja smábátahöfnin formlega tekin í notkun að viðstöddum góðum gestum en það var Sigríður Magnúsdóttir formaður umhverfis- og samgöngunefndar sveitarfélagsins Skagafjarðar sem klippti á borðann.
Það var reyndar pínu kalsi á Króknum þegar athöfnin hófst uppúr kl. 13 en gestir létu sér hvergi bregða. Indriði Einarsson bauð fólk velkomið og stýrði samkomunni. Fyrst flutti Sigríður tölu og í kjölfarið flutti Ásta Pálmadóttir sveitarstjóri kveðju frá Skalla, félagi smábátaeigenda á Norðurlandi vestra. Því næst var gestum boðið að kíkja í húsakynni Siglingaklúbbsins Drangeyjar og þyggja kaffiveitingar. Loks blessaði séra Sigríður Gunnarsdóttir hafnarmannvirkið og eftir að Sigríður Magnúsdóttir klippti á borðann gátu viðstaddir skoðað mannvirkin á meðan félagar í siglingaklúbbnum léku listir sínar og Rögnvaldur Valbergsson spilaði nokkur sjómannalög á nikkuna.
Á heimasíðu Sauðárkrókshafnar kemur fram að um er að ræða tvær bryggjur, önnur er 80 metra löng með 7 fingrum fyrir 14 báta og hinsvegar 60 metra löng bryggja fyrir 34 báta. Notkun á bryggjunum hófst um leið og þær voru tilbúnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.