„Nú reynir á okkur öll“
Vofveiflegir atburðir eiga sér nú stað í Grindavík en eins og vafalaust landsmenn allir hafa fylgst með í fjölmiðlum í dag þá hófst eldgos í túnfæti Grindvíkinga í morgun, fyrst utan varnargarðsins nýreista, en í hádeginu opnaðist jörð innan hans og hraun hóf að renna inn í bæinn.
Það er ljóst að hugur landsmanna er nú hjá Grindvíkingum sem mega upplifa þá hörmung að horfa á hús sín brenna í beinni útsendingu en þegar þetta er ritað hefur hraunið kveikt í þremur húsum. Sveitarstjórnir Skagafjarðar og Húnaþings vestra hafa þegar sent Grindvíkingum góðar kveðjur.
Kveðja Skagafjarðar til Grindvíkinga er birt á heimasíðu sveitarfélagsins og er á þessa leið: „Fyrir hönd Skagfirðinga sendir sveitarstjórn Skagafjarðar hlýjar kveðjur til íbúa Grindavíkur. Það er átakanlegt að verða vitni að þeim náttúruhamförum sem dynja yfir öflugt og samheldið samfélag í Grindavík. Íslenska þjóðin hefur áður sýnt að hún stendur saman sem einn maður þegar ægimáttur náttúruafla minnir á sig og enn mun reyna á í aðgerðum á vettvangi og úrvinnslu og stuðningi við íbúa að yfirstandandi hamförum loknum. Hugur okkar allra er hjá íbúum Grindavíkur. Viðbragðsaðilum og almannavörnum óskum við alls hins besta í þeim krefjandi aðstæðum sem nú eru uppi.“
Kveðjur til Grindvíkinga frá sveitarstjórn Húnaþings vestra: „Okkur setur öll hljóð yfir atburðunum í Grindavík. Við fylgjumst bjargarlaus með hvernig náttúran beitir sínum ægikröftum svo ekkert fær við ráðið. Engu sem fyrir verður er eirt. Hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum sem enn á ný bíða milli vonar og ótta í algerri óvissu um framtíðina.
Við sendum Grindvíkingum öllum og öðrum þeim sem eiga um sárt að binda vegna þessara hræðilegu náttúruhamfara allan okkar styrk. Aðalsmerki íslensks samfélags er samheldnin þegar á bjátar. Við munum öll sem eitt gera allt það sem í okkar valdi stendur til að styðja við samfélagið í Grindavík á meðan á hamförunum stendur og þegar þeim lýkur, vonandi sem allra fyrst.
Einnig færum við þeim sem nú standa vaktina, almannavörnum, viðbragðsaðilum öllum og ekki síst okkar framúrskarandi vísindamönnum hlýjar kveðjur og óskum þeim alls hins besta í þeirri miklu vinnu sem þau standa nú frammi fyrir.“
Fjölmargir aðrir hafa sent Grindvíkingum hlýjar kveðjur og þar með talið forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson. Á heimasíðu forseta segir: „Enn er eldgos hafið í grennd við Grindavík. Enn erum við minnt á ægimátt náttúruaflanna. Og enn vonum við það besta um leið og við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja líf fólks. Þökkum fyrir hve vel gekk að rýma bæinn. Svo reynum við að verja mannvirki eftir bestu getu. Saman hugsum við Íslendingar hlýtt til Grindvíkinga og allra sem sinna almannavörnum og aðgerðum á vettvangi. Nú reynir á okkur öll.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.