Nú reynir á grunngildin - Ólína Þorvaðardóttir, þjóðfræðingur:
Fyrir hálfri annarri öld gekk óáran yfir landið og Íslendingar flykktust hópum saman til Vesturheims undan harðindum og atvinnuleysi. Bændur flosnuðu frá búi og ungu fólki reyndist erfitt að fá jarðnæði. Sú atvinna sem bauðst við sjósókn eða vinnumennsku var árstíðabundin og stopul. Fjölmargir freistuðu því gæfunnar í Vesturheimi þar sem tækifærin biðu í hillingum og og margir náðu sem betur fer að skapa sér nýja fótfestu og framtíð.
Einn þeirra sem steig á skipsfjöl og sigldi mót óráðinni framtíð var skagfirskur, piltur, Stefán Guðmundur Guðmundsson, síðar þekktur sem Stephan G. Stephansson, Klettafjallaskáldið sem síðar orti:
Þitt er menntað afl og önd
eigirðu fram að bjóða
hvassan skilning, haga hönd
og hjartað sanna og góða.
Í þessum fjórum línum birtast þau grunngildi sem kynslóðir Íslendinga hafa tekið sér til fyrirmyndar öld fram af öld, allar götur þar til útrásin hófst. Þessi hitasótt frjálshyggjunnar sem smitaði og gegnsýrði allt okkar litla samfélag í heila tvo áratugi. Þegar efnahagur þjóðarinnar hrundi og sápukúlan sprakk rann það upp fyrir okkur að það var ekki aðeins fjárhagur þjóðarinnar sem hafði beðið skipbrot - siðferðisgildin voru líka hrunin.
Verk að vinna
Verkefnin sem íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir eru svo umfangsmikil – svo alvarleg – að íslensk stjórnmálaumræða mun aldrei verða söm eftir þá atburði sem átt hafa sér stað. Þessir atburðir hafa breytt allri okkar hugsun. Þeir hafa afhjúpað siðferðisbresti, hugsanaleti, ákvarðanafælni og meðvirkni sem hefur gegnsýrt allt okkar stjórnkerfi; alla opinbera umræðu; allt þjóðlífið. Þeir hafa afhjúpað græðgi og misskiptingu af þeirri stærðargráðu að ekki einu sinni í okkar villtustu draumum gátum við gert okkur annað eins í hugarlund.
Aldrei fyrr hefur verið jafn rík þörf fyrir heiðarleika, ábyrgð og hugrekki í íslenskum stjórnmálum. Aldrei fyrr hefur verið jafn rík ástæða til þess að endurheimta þau verðmæti sem við þó eigum Íslendingar – andleg og veraldleg. Og aldrei fyrr hefur verið jafn rík ástæða til þess að endurheimta sjálfsvirðinguna til þess að geta verið þjóð meðal þjóða, í bandalagi og samstarfi við vinaþjóðir þangað sem við getum sótt bæði tilstyrk og fyrirmynd.
Við sem fylgjum jafnaðarstefnunni eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Í baráttunni sem framundan er megum við ekki missa sjónar af þeim grunngildum sem samfélag okkar byggir á. Það verður við ramman reip að draga því verkefnin eru mörg og knýjandi.
Þegar núverandi kvótakerfi var komið á voru fiskimiðin hrifsuð úr höndum sjávarbyggðanna sem í raun réttri hefðu átt að eiga náttúrulegt tilkall til þess að nýta sér fiskimiðin og lifa af þeim. Margar þeirra hafa ekki borið sitt barr síðan. Við eigum að heimta þessa auðlind til baka.
Íslenskan landbúnað þarf að frelsa undan áratugagömlu miðstýrðu framleiðslustjórnunarkerfi. Auka þarf möguleika bænda til þess að sinna sjálfstæðri matvælaframleiðslu og tengja hana ferðaþjónustu til dæmis.
Uppbygging háskólastarfs og símenntunar um land allt er mikilvægur þáttur í því að minnka aðstöðumun og auka atgerfi byggðanna, að ekki sé minnst á samgöngur og fjarskipti sem eru nauðsynlegir grunnþættir í hverri samfélagseiningu – nokkuð sem ekkert hérað getur verið án.
Stjórnmálamenn og stjórnsýslan öll verða að bera ábyrgð og standa vörð um hlutverk stofnana þannig að þær fái að sinna lögbundnu hlutverki sínu án inngripa stjórnmálaflokka eða annarra hagsmunaafla.
Sjálf finn ég sárt til þess – hafandi búið á landsbyggðinni undanfarin átta ár –hversu mjög hefur hallað á hlut norðvestursvæðisins þar sem hagvöxtur hefur verið neikvæður og þungt fyrir fæti í svo mörgum skilningi. Eins og öðrum íbúum svæðisins rennur mér til rifja sá aðstöðumunur sem er á milli þeirra sem búa á suðvesturhorninu og hinna sem búa úti á landi. Ráðherraræðið í okkar litla landi hefur ekki aðeins grafið undan sjálfstæði Alþingis, því völd og miðstýring ráðuneyta hafa líka grafið undan sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. Það er því ekki nóg með að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar – gjáin er ekki grynnri milli höfuðborgar og landsbyggðar.
Sögulegt hlutverk Samfylkingar
Samfylkingin stendur nú á sögulegum tímamótum sem stjórnmálaflokkur. Hún stendur annars vegar frammi fyrir því að innleiða löngu tímabærar lýðræðisumbætur og siðbót í íslensku samfélagi. Hins vegar á hún þess kost að tryggja raunverulegum jafnaðarsjónarmiðum framgang við stjórnarákvarðanir á erfiðum tímum. Flokkurinn stendur með öðrum orðum frammi fyrir því að endurreisa íslenskt samfélag á grundvelli jafnaðarstefnunnar. Það er nú sem reynir raunverulega á.
Eins og sakir standa er dauft yfir íslenskum byggðum og,,hnípin þjóð í vanda” líkt og þegar skagfirskur piltur steig á skipsfjöl og stefndi í vestur fyrir 140 árum. Hann hafði sín grunngildi á hreinu. Þau gildi hafa beðið alvarlega hnekki meðal núlifandi kynslóða. Það er því núna sem reynir á íslenska jafnaðarmenn.
--------------------------
Höfundur er jafnaðarmaður, býður sig fram í 1. eða 2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi og heldur úti bloggsíðunni www.olinathorv.blog.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.