Nú er lag að velja vestfirska valkyrju á þing.
Vinkona mín og samstafskona um margar ára skeið, Ólína Þorvarðardóttir, hefur ákveðið að gefa kost á sér til þingsetu með því að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Það eru sannarlega góðar fréttir fyrir kjósendur kjördæmisins því öflugri og heiðarlegri talsmaður kjördæmisins er vandfundinn.
Ólína hefur aflað sér mikillar þekkingar og reynslu sem virkur þátttakandi í opinberri umræðu mörg undanfarin ár. Hún þótti skeleggur og vandaður fréttamaður á sínum tíma. Fréttir hennar vöktu iðulega athygli og umræðu, ekki síst umfjöllun hennar um framleiðslustýringuna í íslenskum landbúnaði sem hún setti fram á skýran og einfaldan hátt svo almenningur skildi. Mörgum eru enn minnisstæðar myndrænar fréttir af haugakjötinu svokallaða en þá arkaði Ólína upp í Gufunes og myndaði þegar verið var að henda á haugana mörgum tonnum af íslensku lambakjöti, til að rýma til í kjötgeymslum. Almenningi brá mjög í brún þegar það rann upp fyrir fólki hvað raunverulega var á seyði.
Flestir minnast Ólínu einnig sem borgarfulltrúa Nýs vettvangs í Reykjavík 1990-1994 þar sem hún þótti standa sig mjög vel sem oddviti minnihlutans í Borgarstjórn Reykjavíkur, þrátt fyrir ungan aldur. Á þeim tíma hristi þessi skelegga kona vel uppi í umræðunni um borgarmál og hélt uppi öflugum málflutningi sem margir eru sammála um að hafi í reynd markað áherslurnar fyrir kosningastefnuskrá R-listans þegar hann tók við 1994.
Á þeim árum sem hún stýrði Menntaskólanum á Ísafirði fjölgaði nemendum umtalsvert og skólinn varð eftirsóttur sem framsækinn menntastofnun.
Færri vita að Ólína hefur verið ötul sem fræðimaður og þjóðfélagsrýnir – óþreytandi talsmaður landsbyggðarinnar. Hún er hagyrðingur góður og hrókur alls fagnaðar á góðri stundu.Eftir að hún fluttist vestur gerðist hún meðlimur í Björgunarhundasveit Íslands og hefur verið mjög virk í Vestfjarðardeild þeirrar sveitar. Hún er mikil útivistarkona og gengur á Hornstrandir árlega með fræknum gönguhóp, sem ég er svo lánsöm að vera meðlimur í.
Ólína er sannur vinur vina sinna og mikil fjölskyldukona. Hún á aldraða móður og fimm börn og eitt barnabarn sem hún heldur vel utan um.
Ég hvet fólk til þess að veita Ólínu brautargengi sitt í komandi prófkjöri svo ótvíræðir hæfileikar hennar fái að njóta sín í þágu þjóðarinnar. Hún er sannur jafnaðarmaður; réttsýn, ósérhlífin og síðast en ekki síst hugkrökk. Hún hefur alla tíð verið málsvari lítilmagnans en er engu að síður óhrædd við að standa upp í hárinu á þeim sem meira mega sín. Heiðarleiki, réttsýni og tryggð lýsa henni e.t.v. best.
Ragnheiður Davíðsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.