Naumt tap gegn Íslandsmeisturunum

Stólastúlkur vörðust vel í kvöld en það dugði ekki til að þessu sinni. MYND: ÓAB
Stólastúlkur vörðust vel í kvöld en það dugði ekki til að þessu sinni. MYND: ÓAB

Í kvöld mættust lið Breiðabliks og Tindastóls í Pepsi Max deild kvenna en Blikar eru núverandi Íslandsmeistarar. Það mátti því búast við erfiðum leik í Kópavoginum en Stólastúlkur börðust eins og ljón. Það var ekki fyrr en um stundarfjórðungur var eftir af leiktímanum sem Blikar brutu ísinn og gerðu eina mark leiksins. Lokatölur 1-0 og fyrsta tap Tindastóls í efstu deild staðreynd.

Lið Breiðabliks var talsvert meira með boltann í leiknum en uppleggið hjá liði Tindastóls var að vinna boltann og sækja hratt. Byrjunin var erfið hjá gestunum en þær komu sér betur inn í leikinn eftir um 15 mínútna leik og hefðu með smá heppni getað skorað – Blikarnir reyndar sömuleiðis en fyrri hálfleikurinn frekar daufur í heildina og markalaust í hálfleik.

Lið Tindastóls hóf síðari hálfleik ágætlega og Sylvía átti skot sem sleikti stöngina eftir sendingu frá Jackie. Á 60. mínútu skoruðu Blikar en Tiffany Mc Carty reyndist rangstæð. Murr átti gott skot að marki Blika stuttu síðar en Jackie var dæmd rangstæð. Á 76. mínútu skoraði síðan Tiffany eina mark leiksins eftir sendingu frá Áslaugu Mundu sem komst framhjá Maríu Dögg og sendi fastan bolta fyrir markið sem Tiffany potaði inn. Stólastúlkur reyndu hvað þær gátu til að jafna en það hafðist ekki í dag.

Þrátt fyrir tapið er lið Tindastóls í fjórða sæti deildarinnar með fjögur stig og á leik til góða. Næsti leikur liðsins er á Króknum fimmtudaginn 27. maí en þá koma grannarnir í Þór/KA í heimsókn. Leikurinn þar á eftir er síðan 31. maí gegn liði Breiðabliks í Kópavogi í Mjólkurbikarnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir