Naumt tap gegn FH í jöfnum leik

Nú þurfa Stólastúlkur að snúa bökum saman og berjast allt til enda. MYND: ÓAB
Nú þurfa Stólastúlkur að snúa bökum saman og berjast allt til enda. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls skellti sér í Hafnarfjörðinn í dag þar sem FH-stúlkur biðu þeirra í Kaplakrika. Meiðsli og veikindi hrjáðu gestaliðið sem engu að síður barðist af hörku og hefði mögulega geta nælt í stig. Tap reyndist hinsvegar útkoman þegar upp var staðið en FH gerði eina mark leiksins í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Stólastúlkur hefðu getað náð forystunni eftir fjórar mínútur þegar Hannah átti fyrirgjöf sem endaði í stönginni og samherjar hennar náðu ekki að koma boltanum í markið í kjölfarið. Leikurinn var jafn en lið FH náði forystunni á 46. mínútu þegar Esther Rós komst fram fyrir varnarmann Tindastóls og kom boltanum í markið. Gestirnir fengu gott færi í byrjun síðari hálfleiks og nokkra sénsa þar á eftir en það var lið FH sem komst næst því að bæta við marki þegar þær uppskáru vítaspyrnu á 90. mínútu eftir að Gwen fékk boltann í hendina. Monica varði vítið hinsvegar með tilþrifum. Melissa var svo nálægt því að jafna á 95. mínútu en skotið fór rétt yfir markið. 1-0 fyrir FH því staðreynd.

Vantar meiri dýpt í hópinn

Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Murr að leik loknum og byrjaði að spyrja hvort úrslitin hefðu verið sanngjörn eða Stólastúlkur átt meira skilið. „Mér fannst við koma til leiks með mikla baráttu og gáfum allt í leikinn og ég er stolt af stelpunum fyrir vinnusemina í dag. Helmingurinn af hópnum var veikur fyrir leikinn eða að stríða við meiðsli þannig að það að geta barist eins og við gerðum segir mikið um hópinn okkar. Ég held að lið FH hafi nýtt tækifærið sitt mjög vel í dag og það er það sem einmitt það sem okkur hefur vantað, að koma boltanum í netið. Þannig að allt í allt voru þetta sanngjörn úrslit – ég held að við höfum lagt nógu hart að okkur til að verðskulda jafntefli en náðum ekki að klára færin þegar þau gáfust.“

Hvað er það sem liðið vantar núna?„Það sem okkur vantar helst er dýpri hópur. Við þurfum líka að bæta varnarskipulagið okkar (tókum skref í rétta átt í dag) og framkvæmdina sóknarmegin.

Er Besta deildin jafnvel sterkari en Pepsi Max deildin fyrir tveimur árum?„Deildin í ár er geggjuð og allir eru út um allt og geta sigrað hvern sem er á sínum degi. Sem gerir það að verkum að deildin er enn meira spennandi.“

Hvað er svo planið fyrir restina af tímabilinu? „ Planið fyrir restina af tímabilinu er að þjappa okkur saman í þessari smá pásu sem er framundan og vonandi bæta við hópinn okkar og koma öllum aftur í 100% form svo við getum sótt af fullum krafti allt til loka tímabilsins. Við vitum að við erum færar um að ná árangri, við verðum bara að halda baráttunni sem við sýndum í dag og gæðum að sama marki,“ sagði Murr.

Að leik loknum sitja Stólastúlkur í níunda sæti en ÍBV stökk upp fyrir lið Tindastóls með sterkum 2-0 sigri gegn liði Þórs/KA á Akureyri í dag. Það eru einmitt Eyjastúlkur sem koma í heimsókn á Krókinn 23. júlí þegar 13. umferðin hefst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir