Myndir frá heimsóknum til Feykis á öskudegi
Það er ekki á hverjum degi sem Feykir fær heimsóknir frá syngjandi kátum vampírum og nornum, Bat- og köngulóarmönnum, prinsessum og og hvað þá Almari í kassanum. Ef einhverjir voru ekki klárir á því hvaða dagur var þá varð snemma ljóst að það var runninn upp enn einn yndislegur öskudagur, fullur af gleði og söng.
Fyrstu krakkarnir komu í heimsókn um klukkan 9 í morgun og síðan hver hópurinn af öðrum. Sumir fóru um í stórum hópum en aðrir sungu kannski dúett. Að venju voru tónlistaratriðin misjöfn enda þarf pínu kjark til að hefja upp raust sína fyrir framan oft á tíðum bláókunnugt fólk og stjörnurnar eru ekkert alltaf í stuði.
Á þriðja hundruð krakkar heimsóttu Feyki og Nýprent og var lagalistinn ansi hreint fjölbreyttur. Oftast var sungið um Gamla Nóa sem nú var oftar en ekki að klúðra því að poppa popp. Aluetta var tekið óþarflega oft og ekki laust við að krummi hafi krunkað úti meira en góðu hófi gegndi. Það var hins vegar skarð fyrir skildi að Bjarnastaðabeljurnar bauluðu ekkert núna en söngurinn um þær kusur hefur verið sívinsæll meðal söngvaranna í gegnum árin.
Sumir voru ansi metnaðarfullir og dönsuðu auk þess að syngja. Á meðal laga sem heyrðust sungin má nefna Uptown Funk, Lífið er yndislegt, Rauða nótt, Í síðasta skipti, Happy auk þess sem lag með Steinda Jr. var tekið, talsvert mergjaður kattasöngur og intróið í Indiana Jones. Já, öskudagurinn er endalaust skemmtilegur.
Það voru Sigga og Óli Arnar sem sáu um að mynda fyrir Feyki í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.