Murr og Sigurður Pétur valin best hjá Stólunum
Að loknum síðasta leik Stólastúlkna í fótboltanum á laugardag var haldin uppskeruhátíð beggja meistaraflokka Tindastóls. Fór hátíðin fram í Félagsheimilinu Ljósheimum og var rífandi stemning. Meðal annars var tilkynnt um val á bestu leikmönnum karla- og kvennaliðsins og var niðurstaðan sú að Sigurður Pétur Stefánsson var valinn bestur karlanna og var vel að því kominn en hjá dömunum þótti Murielle Tiernan best.
Á uppskeruhátíðinni var sýnt myndband frá stuðningsmannahópnum Sessunni og þá mun Lee Ann Maginnis, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildarinnar, hafa heiðrað fyrirliða beggja liðanna fyrir að hafa þolað sig í sumar. Lee Ann tjáði Feyki að erlendir leikmenm félagsins séu nú að týnast heim; stelpurnar smám saman en strákarnir voru allir farnir fyrir lokahófið. Anton Örth, sem var valinn besti liðsfélaginn af strákunum, var til dæmis farinn heim til Svíþóðar en var með á Facetime.
Að þessu sinni fór velið á besta leikmanninum þannig fram að einungis þjálfararnir fengu að velja þá en leikmenn völdu besta liðsfélagann og efnilegasta leikmanninn.
Það voru þeir Blönduós-bræður, Sigurður Pétur og Jón Gísli Stefánssynir, sem urðu fyrir valinu í karlaflokki; Sigurður Pétur valinn bestur og Jón Gísli efnilegastur. Anton Örth sem fyrr segir besti liðsfélaginn.
Í kvennaflokki var Murr valin best en hún lék sinn 100. leik með liði Tindastóls í sumar og skoraði sitt 100. mark sömuleiðis og hefur bætt í sarpinn síðan. Elísa Briét Björnsdóttir, sem er búin að spila yfir 50 fótboltaleiki í ár, var valin efnilegust en hún er 15 ára og frá Skagaströnd og hefur verið að spila með 3. flokki og 2. flokki Norðvestanliða auk þess að spila með meistaraflokknum. Loks var Bryndís Rut Haraldsdóttir valin besti liðsfélaginn sem fyrirliðinn hressi og jákvæði á sannarlega skilið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.