Murr hélt upp á 100. leikinn með sigurmarki í Keflavík

Murr er komin með 100 leiki fyrir Stólastúlkur og hefur skorað í þeim 98 mörk. Geri aðrir betur. Hér er hún á ferðinni í leik gegn FH fyrr í sumar. MYND: ÓAB
Murr er komin með 100 leiki fyrir Stólastúlkur og hefur skorað í þeim 98 mörk. Geri aðrir betur. Hér er hún á ferðinni í leik gegn FH fyrr í sumar. MYND: ÓAB

Eftir þrjá slæma skelli í síðustu þremur umferðum nældu Stólastúlkur í sætan sigur í Keflavík í kvöld. Leikurinn var bísna fjörugur framan af en eina mark leiksins leit dagsins ljós á 32. mínútu þegar Murr skoraði annað mark sitt í sumar eftir góðan undirbúning Aldísar Maríu. Sigurinn var mikilvægur í ljósi þess að Eyjastúlkur höfðu lagt Selfoss í gras fyrr í dag en sigur Tindastóls þýddi að liðið skaust að nýju upp fyrir ÍBV og er í áttunda sæti Bestu deildarinnar.

Sem fyrr segir var leikurinn fjörugur og lið Tindastóls hefði hæglega getað skorað tvö mörk á upphafsmínútunum. Besta færið fékk Hugrún sem komst ein í gegn en setti boltann framhjá opnu marki eftir um tíu mínútna leik. Heimastúlkur fengu líka færi á hinum endanum en ef eitthvað þá voru sénsar gestanna hættulegri. Murielle Tiernan kom Tindastólsliðinu í forystu eftir 32 mínútur en þá fékk Aldís boltann á hægri kantinum, komst inn fyrir bakvörð Keflvíkinga og upp að endamörkum. Hún sendi góða sendingu út fyrir markteig þar sem Murr kom aðvífandi og skellti boltanum í markið af öryggi. Þetta var 98. mark Murr fyrir lið Tindastóls í deild og bikar en hún spilaði einmitt 100. leik sinn í kvöld. Rétt fyrir hlé áttu Keflavíkurstúlkur skot í þverslá úr aukaspyrnu en Melissa virtist vera með mest allt á hreinu í marki Tindastóls.

Lið Tindastóls gaf fá færi á sér í síðari hálfleik og í raun voru það gestirnir sem komust næst því að skora. Fyrst var það Elísa Bríet, 15 ára frá Skagaströnd, sem var nánast nákvæmlega hársbreidd frá því að skora fyrsta mark sitt í Bestu deildinni. Hún kom inn á 81. mínútu og tveimur mínútum síðar lagði Murr boltann fyrir hana við vítateigsbogann og Elísa átti frábært skot sem small í þverslánni og þaðan niður á marklínuna. Geggjað skot og þvílíka óheppnin að boltinn færi ekki inn. Tveimur mínútum síðar slapp síðan Murr inn fyrir vörn Keflavíkur en Vera Varis gerði vel í markinu og náði að verja eftir gott úthlaup. Heimastúlkur pressuðu í lokin en áttu ekki skilið að skora – Stólastúlkur héldu út og fögnuðu innilega dýrmætum þremur stigum.

Tindastólsliðið var vel að sigrinum komið, þær sköpuðu sér nokkur prýðileg færi og hefðu að ósekju átt að vinna stærri sigur. Leikurinn var þó í heildina jafn en það voru gestirnir sem náðu að nýta sína styrkleika betur í kvöld. Næst mæta stelpurnar liði Breiðabliks í Kópavogi þann 4. júlí og það er ekki spurning að það er löngu kominn tími til að vinna þær grænu. 

Donni er mjög ánægður með allan hópinn

„Liðið gaf allt í leikinn og uppskar eftir því,“ sagði Donni þjálfari þegar Feykir spurði hann út í frammistöðu liðsins að leik loknum. „Varnarleikur liðsins var frábær allan leikinn og við gáfum fá ef einhver færi á okkur i dag. Einnig var sóknarleikurinn frekar beittur og fyrir utan þetta frábæra mark þá fengum við lika þrjú önnur dauðafæri auk skots í slá. Heildarframmistaða liðsins var virkilega góð.“ Aðspurður um hvort Elísa væri farin að banka á byrjunarliðsdyrnar sagði Donni: „Elísa er landsliðsstelpa og er mjög efnilegur ungur leikmaður sem er alltaf að stimpla sig meir og meir inn. Annars áttu allar góðan dag i dag og ég er mjög ánægður með allan hópinn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir