Mun vinna að því að byggja upp samband þjóðanna
Ágúst Andrésson, forstöðumaður Kjötafurðastöðvar KS, var nýlega skipaður kjörræðismaður Rússlands á Íslandi. Móttaka honum til heiðurs var haldin í Rússneska sendiráðinu í Reykjavík þann 10. desember síðastliðinn.
Veðurguðirnir höguðu því þannig að ritstjóri Feykis gat ekki verið viðstaddur en blaðamaður sló á þráðinn til Ágústs nú í vikunni og spurði hann út í þessa nafnbót og hvað í henni fælist.
„Það eru rúm tvö ár síðan þetta kom til fyrst. Þá kviknaði það útfrá góðum vinskap við þáverandi sendiherra Rússa. Við höfðum mikinn áhuga á því og ræddum það oft hvernig við gætum aukið viðskiptin á milli landanna og aukið menningartengsl og annað slíkt.
Í einhverju af okkar spjalli, ásamt Erlendi Garðarssyni, félaga okkar sem á stóran þátt í þessu líka, þá kom þetta til tals, hvort að ég væri tilbúinn til að taka þetta að mér,“ segir Ágúst um aðdraganda þess að hann var skipaður kjörræðismaður Rússlands á Íslandi. Ágúst segir jafnframt að Úkraínudeilan hafi tafið málið og orðið til þess að það tók miklu lengri tíma í kerfinu úti í Rússlandi en venja er.
„Það að vera heiðursræðismaður einhvers lands er fyrst og fremst þessi nafnbót og heiðurstilnefning, sem felur það síðan í sér að maður lýsir því í rauninni yfir að maður sé tilbúinn til að vinna áfram að því að byggja upp samband þjóðanna, bæði í viðskiptalegum og menningarlegum tilgangi.“
Embættið felur einnig í sér að aðstoða rússneska ríkisborgara sem eru hér á landi og þurfa að einhvers konar aðstoð að halda, hvort sem það eru ferðamenn í vandræðum eða fólk sem vill komast í einhver viðskipti við landið. Þannig mun Ágúst sinna svæðinu frá Egilsstöðum í austri til Ísafjarðar í vestri.
Ágúst segir að nafnbótin eigi eftir að nýtast honum vel í þeim viðskiptum sem hann hefur farið fyrir í Rússlandi, en hann hefur verið í forsvari fyrir kjöt- og fisksölu þar ytra. Hann segir útflutninginn þangað alltaf í vexti og er bjartsýnn á að svo verði áfram.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.