Monica í markagili

Monica grafalvarleg – sem hún virðist nú aldrei vera nema mögulega í markinu. MYND: DAVÍÐ MÁR
Monica grafalvarleg – sem hún virðist nú aldrei vera nema mögulega í markinu. MYND: DAVÍÐ MÁR

Það mætti nýr markvörður til leiks hjá liði Tindastóls síðastliðið sumar til að verja mark Stólastúlkna í Bestu deildinni. Það var Monica Wilhelm, bandarísk stúlka, þá 23 ára, sem hafði það verkefni að fylla í skarðið sem Amber Michel skildi eftir en hún ákvað að taka slaginn í Disneylandi eftir þrjú skemmtileg sumur á Íslandi. Monica reyndist öflugur markvörður og sló í gegn í Bestu deildinni og hún þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um þegar henni bauðst að endurtaka leikinn í ár. Feykir forvitnaðist um markvörðinn. 

Monica er dóttir Rick og Triciu Wilhelm og á einn eldri bróðir, Steven. Þau koma frá bænum Antioch í Illinois-fylki í um klukkutíma fjarlægð frá Chicago. „Bærinn er umkringdur vötnum og þar búa um það bil 14 þúsund manns. Þetta var frábær staður til að ala upp krakka vegna þess að þú elst upp við andann og öryggið sem fylgir minni bæjum á meðan þú ert aðeins í klukkutíma fjarlægð frá stórborginni,“ segir Monica. Hún stundaði síðan nám við háskólann í Iowa þar sem hún lagði stund á íþróttir, þjálfun og upplifunarskipulagningu auk þess sem hún stóð í markinu hjá knattspyrnuliði skólans sem spilaði í 1. deildinni. „Ég hef verið markvörður frá 12 ára aldri. Pabbi var markmaður bæði í fótbolta og íshokkí og bróðir minn var íshokkímarkmaður á unglingsárunum. Þegar ég byrjaði fyrst að spila fótbolta vildi ég vera sú sem skoraði mörkin en þegar ég varð eldri fann ég að mig langaði meira að bjarga mörkum en að skora þau. Pabbi er hetjan mín og innblástur og mér fannst eins og það væri mér í blóð borið að verða markvörður eins og hann.“

Hvar byrjað fótboltaævin-týrið þitt? „Ég byrjaði að spila fótbolta sjö ára gömul fyrir lið nálægt heimili mínu. Ári síðar gekk ég til liðs við fyrsta félagið mitt sem var allt skipað strákum. Síðar spilaði ég í stelpuliðum fyrir menntaskólann [High School] minn og önnur félagslið sem ferðuðust um landið þar til ég ákvað að taka slaginn með liði háskólans í Iowa.

Monica segist hafa alist upp í íþróttaelskandi fjölskyldu þannig að margar minningar hennar frá því hún var krakki tengjast íþróttum og alls kyns útiveru. „Stundum trúi ég því að ég og bróðir minn höfum fengið náttúrulega íþróttahæfi-leika frá pabba og ég held að það besta sem hann gaf okkur hafi verið dugnaður og hjarta. Frá unga aldri vissum við að við værum kannski ekki alltaf best á vellinum en við ætluðum að vera duglegri og hafa meiri ástríðu en nokkur annar. Sennilega hefur það leitt mig þangað sem ég er í dag og þar sé ég framtíðina fyrir mér. Ég held að það að alast upp með eldri bróður í götu sem var að mestu full af strákum hafi hvoru tveggja kennt mér að vera sterk, að leika óttalaus og standa með sjálfri mér þegar ég var krakki. Allan minn feril hef ég æft með strákum á mismunandi skeiðum og ég mun alltaf vera þakklát þjálfarunum sem treystu mér til þess.“

Hvað varð til þess að þú komst til Íslands að spila fótbolta? „Áður en ég kom til Íslands í fyrra var ég að ljúka námi við háskólann í Iowa. Það var alltaf draumur minn að spila atvinnumannafótbolta og ég var staðráðin í að gera allt sem í mínu valdi stóð til að svo gæti orðið. Markvarðarþjálfarinn minn í háskóla hafði tengsl við Tindastól og eftir að hafa talað við Donna vissi ég að þetta væri besti staðurinn til að kalla „heima“.“

Hvað hefur komið mest á óvart síðan þú komst til Íslands? „Það sem kom mest á óvart eftir komuna til Íslands var líklega veðrið. Ég hafði ekki hugmynd um við hverju ég átti að búast og ég held að ég hafi aldrei upplifað snjó í júní eða vindinn sem við spilum stundum í.

Hugsaðirðu einhverntímann; fjandinn, ég er farin heim!? „Maður er stundum á báðum áttum þegar maður þarf að fara frá Íslandi. Það er erfitt að vera fjarri fjölskyldunni í svo langan tíma en þegar þú ferð þá áttar þú þig á því hversu mikið þú saknar íslensku fjölskyldunnar þinnar líka. Maður stundar lífið með fólkinu hérna á hverjum degi og svo kemur tími til að fara og það getur kramið í manni hjartað.“

Hvernig er tilfinningin að vera hluti af Tindastólsliðinu? „Það er heiður að vera hluti af liði Tindastóls. Þegar ég gekk til liðs við félagið í fyrra var ég spennt fyrir að vera í liði sem var nýkomið upp í Besta deildina. Ég vissi að það yrði erfitt að halda liðinu uppi og ég vildi gera allt sem í mínu valdi stóð til að stuðla að velgengni liðsins og halda því í efstu deildinni þar sem það á heima. Það er bara eitthvað svo sérstakt við þetta lið sem þú finnur ekki annars staðar. Þótt önnur lið kunni að telja okkur ekki ógna sér þá held ég að við séum eitt þeirra liða sem erfiðast er að spila við í deildinni. Þegar lið sameinast svo sterkt eins og ein fjölskylda þá er baráttan og ástríðan sem birtist á vellinum ótrúleg. Það er heiður að vera hluti af þessa-ri fjölskyldu og berjast við hlið Stólastúlkna á hverjum degi.“

Hver er tilfinning þín fyrir fótboltanum á Íslandi, er Besta deildin sterkari en þú bjóst við? „Það var svo sannarlega aðlögun að fara frá háskólafótbolta í Bandaríkjunum yfir í að spila í Bestu deildinni. Það eru margir hæfileikaríkir leikmenn í þessari deild sem hafa hjálpað mér að verða betri markvörður. Ég held að það sé erfitt að bera háskólafótbolta í Bandaríkjunum saman við Ísland vegna þess hversu ólíkur leikstíllinn getur verið.“

Hver er uppáhalds liðsfélaginn þinn eða sá skemmtilegasti? „Það er ómögulegt að velja uppáhalds þegar þú elskar alla svo mikið. Hver einasta manneskja er svo einstök og mikilvægur hluti af liðinu og ég er svo þakklát fyrir að hafa þær allar í lífi mínu. Ég er svo þakklát fyrir hvern stjórnarmann, sjúkraþjálfara, lækni, þjálfara, liðsfélaga og samfélagið sem styður okkur í öllu sem við gerum. Ef ég yrði að velja uppáhalds liðsfélaga minn þá væri það sjúkraþjálfarinn okkar, Helena Magnúsdóttir.

Hvernig finnst þér íslenski maturinn, er eitthvað sem þér líkar ekki við, hefurðu til dæmis smakkað hákarl eða hrossakjöt? „Ég elska matinn hérna! Við fáum hádegismat á Grettistaki og það er einn uppáhalds partur hvers dags hjá mér. Starfsfólkið er frábærir kokkar og ótrúlegar manneskjur. Einn af uppáhalds réttunum mínum er breaded foul. Ég hafði ekki hugmynd um að hestar væru borðaðir á Íslandi og það var frekar erfitt að fá mig til að prófa að borða hrossakjöt þar sem hestar eru uppáhaldsdýrið mitt. Ég er pínu leið að þurfa að viður-kenna að nú er hrossakjöt í uppáhaldi hjá mér!“

Hverjar voru vonir þínar fyrir tíma þinn hér á Íslandi? „Ég held að stærsta von mín áður en ég kom til Íslands hafi verið að sökkva mér inn í menninguna og kynnast eins mörg-um og ég gæti. Þetta land er töfrandi en fólkið gerir það að þeirri ótrúlegu upplifun sem það er að búa hér.“

Hefur þú farið um landið að heimsækja ferðamannastaði? „Í fyrra gat fjölskyldan mín komið í heimsókn í viku í landsleikjafríinu okkar í júlí. Í þessari viku [í júníbyrjun] gat ég ferðast um allt land með fjölskyldunni minni og þetta var ein ótrúlegasta ferð sem ég hef farið í. Landslagið hér á landi er alveg hrífandi. Sama hversu margar gönguferðir eða fossa ég hef séð, þetta land mun aldrei hætta að undra mig með fegurð sinni.“

Hver er helsti munurinn á Bandaríkjunum og Íslandi, eru Íslendingar ólíkir Bandaríkjamönnum á einhvern hátt? „Ég held að Bandaríkin og Ísland séu að mörgu leyti eins en það er líka mjög erfitt að bera þau saman vegna stærðarmunarins á löndunum tveimur. Í ljósi þeirrar stað-reyndar að flestir íbúar tala ensku, þá var aldrei tungu-málahindrun og það gerði umskiptin yfir í að búa hér svo miklu auðveldari. Því meiri tíma sem ég eyði á Íslandi því erfiðara er fyrir mig að fara aftur til Bandaríkjanna.“

Hvernig myndir þú lýsa Tindastólsliðinu og sam-herjum þínum? „Liðsfélagar mínir eru fjölskyldan mín. Að koma aftur til Tindastóls í annað tímabil var auðveldasta ákvörðunin að taka vegna þessa liðs. Frá því ég gekk til liðs við Tindastól fékk ég strax vinahóp, starfsfólk og samfélag til að fara með í gegnum lífið. Sama hvað lífið kastar í okkur þá stendur þetta lið saman. Ég væri ekki sá leikmaður eða sú manneskja sem ég er í dag án þessa ótrúlega fólks í lífi mínu. Þau verða fjölskylda sem ég á að eilífu.“

Var erfitt að koma til Íslands í fyrsta skiptið? „Allir á Króknum gerðu það svo auðvelt að flytja frá Bandaríkjun-um til Íslands. Frá þeirri sekúndu sem ég kom hingað fannst mér fólk taka mér svo vel og vera umhyggjusamt. Ég elska að ferðast svo ég var mjög spennt að flytja til Íslands. Ég vissi satt að segja ekki við hverju ég átti að búast – en ég vil stundum hafa það þannig. Það er gott að hafa opinn huga fyrir öllu sem maður gerir í lífinu.“

Hvað gerir þú á Sauðárkróki fyrir utan fótbolta, hvernig er dæmigerður dagur hjá þér? „Ef þú gengur framhjá fótboltavöllunum á Króknum, gefðu þér þá tíma til að dást að grasinu því það er slegið af okkur fótboltamönnunum sem vinnum á vellinum á sumrin,“ segir Monica hlæjandi. „Dæmigerður dagur felur venjulega í sér að vinna á vellinum og/eða þjálfa unga fótboltamenn fram að hádegi. Síðan njótum við öll hádegis-hlés á Grettistaki. Eftir hádegismatinn förum við venjulega í ræktina eða í sjúkraþjálfun áður en tími er kominn til að æfa á kvöldin. Eftir æfingar elskum við að fara í sundlaugina og svo fer restin af kvöldinu yfirleitt í að elda kvöldmat og hanga. Þegar veðrið er gott eyðum við mestum tíma okkar úti. Ég og vinir mínir erum öll virkt fólk svo við elskum að fara í ævintýraferðir, ganga og stunda aðrar íþróttir í frítíma okkar. Oft er líka hægt að finna okkur í bakaríinu eða heimsækja hesta og kindur hér í nágrenn-inu. Kærar þakkir til allra sem eiga dýrin og leyfa okkur að klappa þeim.“

Býrð þú yfir leyndum hæfileika? „Stelpurnar í liðinu kalla mig dansdrottningu (Dancing Queen). Svarar það spurningu þinni?“ spyr Monica hlæjandi.

Hvaða fótboltamaður hefur veitt þér innblástur á ferlinum? „Fyrsti og stærsti innblástur minn er pabbi. Hann hefur alltaf verið hetjan mín og ég vona að ég verði jafnvel hálf sú manneskja sem hann er. Hann og mamma hafa alltaf verið mínir stærstu stuðningsmenn og ég vonast til að gera þau stolt í öllu sem ég geri. Innblástur minn í atvinnumannafótbolta er Manuel Neuer [þýski landsliðsmarkvörðurinn]. Frá því ég byrjaði að spila fótbolta hef ég alltaf litið upp til hans og hvernig hann spilar. Sem krakki eyddi ég mörgum klukkutímum í að horfa á myndina hans á YouTube. Að mínu mati mun hann alltaf verða einn albesti markvörður sögunnar.“

Hvað hefur verið erfiðast við dvöl þína á Íslandi? „Sending og pöntun pakka. Ég er vel þekkt meðal vina minna fyrir að vera skelfilega óheppin með póstsendingar til Íslands. Það tekur mig mánuði að fá pakka vegna þess að þeir annað hvort týnast í flutningi eða geymdir í tollinum í langan tíma. Þetta er líklegast mér að kenna vegna þess að ég reyni að senda hluti eins og Chick-fil-a sósu. Ef þú hefur einhvern tíma prófað þessa sósu veistu nákvæmlega hvers vegna ég þurfti að fá hana senda til mín – hún er lífsnauðsynleg. Haha!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir